Hagnaður bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs lækkaði um 53% á fyrsta ársfjórðungi eftir afskriftir. Tap bankans er þó minna en gert hafði verið ráð fyrir.

Hagnaður bankans á ársfjórðungnum lækkaði um það sem nemur 1,5 milljarði Bandaríkjadala eða 3,23 dala á hlut. Þannig nam tekjur bankans 8,3 milljarði dala en greiningadeildir vestanhafs höfðu að meðaltali gert ráð fyrir 7,3 milljarða dala hagnaði samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni.

Eins og kunnugt er hafa bankar og fjármálafyrirtæki tapað miklu fjármagni vegna undirmálslánakrísu í Bandaríkjunum. Goldman Sachs hefur þó að mati bæði Reuters fréttastofunnar og Bloomberg verið undantekning frá þeirri reglu. Bankanum tókst árið 2007 að skila methagnaði sem fyrst og fremst mátti rekja til lítilla áhættufjárfestinga.

Hlutabréf bankans hafa engu að síður lækkað 30% það sem af er þessu ári og segir Bloomberg að ástæðan sé hætta á auknu tapi bankans á árinu.

Bloomberg hefur þó eftir viðmælenda sínum að bankinn muni halda áfram að koma á óvart og lítil áhættusækni bankans muni koma honum til góða á næstunni.