Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hagnaðist um 177 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2006, segir greiningardeild Landsbankans. Það er tæpum 62% meira en á sama tíma í fyrra.

Hagnaður á hlut nam 5,08 dollara samanborið við 2,94 dollara á hlut árið áður.

Uppgjörið er talsvert yfir væntingum greiningaraðila, en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir hagnaði upp á 113,7 milljarða króna hagnaði og að hagnaður á hlut næmi 3,29 USD.

Rekstrartekjur fjórðungsins námu 731,7 milljörðum króna sem er það mesta í sögu félagsins og 42% hærra en fyrra tekjumet á fjórðungi, segir greiningardeildin.

Frávikið skýrist mestmegnis af hærri fjárfestingahagnaði og hærri þóknunartekjum vegna ráðgjafarverkefna við samruna og yfirtökur.

Goldman Sachs er einn elsti fjárfestingabanki heims og hefur veitt ráðgjöf í mörgum af stærstu samrunum Bandaríkjanna. Hjá bankanum starfa rúmlega 22.000 manns.