Hagnaður bandaríska dekkjaframleiðandans Goodyear var á þriðja ársfórðungi um 31 milljón Bandaríkjadalir samanborið við hagnað upp á 668 milljónir dala á sama tíma í fyrra.

Þetta gerir 13 cent á hvern hlut samanborið við hagnað upp á 2,12 dali á hvern hlut í fyrra.

Hagnaður félagsins dregst því saman um 95% milli ára. Þó er rétt að taka fram að Goodyear seldi nokkuð af eignum í fyrra, til að mynda framleiðsludeild sína í Bandaríkjunum.

Tekjur félagsins á þriðja ársfjórðungi hækkuðu um 2% og námu 5,2 milljörðum dala.

Um 13% samdráttur hefur orðið á sölu bifreiða í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári og finnur dekkjaframleiðandinn eins og gefur að skilja fyrir því.

Félagið hefur þó að eigin sögn náð að skera niður um 1,6 milljarð dala í rekstrarkostnað milli ára og áætlar að spara um 2 milljarða dali á næsta ári með frekari sparnaðaraðgerðum. Þannig áætlar félagið að loka um 12% verslana sinna í Bandaríkjunum auk þess sem um 600 manns verður sagt upp á næstu misserum.

Í uppgjörstilkynningu Goodyear kemur fram að meirihluti sölunnar fer fram í gegnum bílaframleiðendur og því minni þörf á sérstökum verslunum.

Gengi hlutabréfa í Goodyear hefur lækkað um 68% það sem af er ári.