Hagnaður Hampiðjunnar á fyrstu níu mánuðum ársins nam 3,4 milljónum evra samanborið við 3 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Hagnaðurinn jókst því um 13% milli ára. Tekjur samstæðunnar námu 38,1 milljón evra og jukust um 5% frá sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður á tímabilinu var 3,1 milljón evra. Á sama tímabili fyrra árs var rekstrarhagnaður 3,4 milljónir evra en meðtalið í þeirri upphæð var ein milljón evra söluhagnaður fasteigna.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að fjármunatekjur að frádregnum fjármagnsgjöldum námu 258 þúsund evrum til gjalda en voru 563 þúsund evrur til gjalda á sama tímabili í fyrra. Meðtalið í þessum lið er nettó tap af sölu og niðurfærslu hlutabréfa að upphæð 156 þúsund evrur og gengishagnaður vegna peningalegra liða að upphæð 743 þúsund evra.

Flutningi á framleiðslu grunneininga veiðarfæra til dótturfélags Hampiðjunnar í Litháen, sem hófst árið 2003, lýkur á næstum mánuðum þegar framleiðsla á garni hefst í 6 þús. fermetra viðbyggingu við verksmiðju dótturfélags Hampiðjunnar í Litháen. Þá verður öll framleiðsla samstæðunnar á garni, netum og köðlum komin til Litháen í 20. þús. fermetra sérhannaða verksmiðju og í umtalsvert samkeppnishæfara rekstrarumhverfi en er hér á landi.

Rekstur Swan Net Gundry á Írlandi, Skotlandi og austurströnd Bandaríkjanna gekk vel á tímabilinu og horfur ágætar. Rekstur Cosmos í Danmörku hefur verið ívið betri en á fyrra ári. Rekstur minni dótturfélaga á fjarlægum mörkuðum hefur í heildina batnað og sóknarfæri myndast á mikilvægum mörkuðum svo sem á vesturströnd Bandaríkjanna.

Lítil sem engin kolmunnaveiði hefur verið hjá íslenskum skipum eftir mitt þetta ár. Sala veiðarfæra til þeirra veiða hefur því orðið minni en ráð var fyrir gert. Þá býr sterkt gengi krónunnar innlendri veiðarfæragerð og útgerð erfitt starfsumhverfi.