Hagnaður HB Granda hf. á þriðja ársfjórðungi nam alls 1.52 milljón króna sem er mun betri afkoma en á sama tíma fyrir ári þegar hagnaður var 585 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins´til Kauphallarinnar. Þrátt fyrir góðan rekstur á fjórðungnum var 1.037 milljón króna tap á fyrstu níu mánuðum ársins.

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrstu níu mánuðum ársins 2006 námu 10.855 mkr, samanborið við 8.570 mkr á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 2.204 mkr eða 20,3% af rekstrartekjum, samanborið við 1.505 mkr eða 17,6% árið áður. Rekstrarhagnaður af eigin starfsemi var 1.297 mkr, en var 638 mkr á sama tímabili árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 2.630 mkr, en jákvæð um 530 mkr árið áður. Munar þar miklu um gengismun og verðbætur lána, sem voru neikvæð um 2.099 mkr fyrstu níu mánuði ársins 2006, en voru jákvæð um 973 mkr á sama tíma árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 109 mkr, en um 13 mkr árið áður. Tap fyrir tekjuskatt var 1.224 mkr á móti 1.182 mkr hagnaði á fyrstu níu mánuðum fyrra árs. Tap HB Granda hf. á fyrstu níu mánuðum ársins 2006 nam 1.037 mkr eftir að tekið hefur verið tillit til áhrifa tekjuskatts.

Rekstur þriðja ársfjórðung 2006

Rekstrartekjur HB Granda hf. á þriðja ársfjórðungi ársins 2006 námu 3.185 mkr, en voru 2.488 mkr á þriðja ársfjórðungi 2005. Þessi vöxtur um 28% skýrist m.a. af hærra afurðaverði í erlendri mynt og veikara gengi íslensku krónunnar. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á ársfjórðungnum var 557 mkr eða 17,5% af rekstrartekjum, samanborið við 297 mkr eða 12% sama tímabil árið áður. Hærra EBITDA hlutfall ræðst m.a. af verðhækkunum og veikingu krónunnar. Þannig var meðalgengisvísitala krónunnar á þriðja ársfjórðungi 16% hærri en á sama tímabili árið áður. Á móti kom að olíuverð hækkaði um 28%. Rekstrarhagnaður af eigin starfsemi var 262 mkr á ársfjórðungnum, en rekstrartap af eigin starfsemi var 16 mkr á sama tímabili árið áður.

Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru jákvæð um 1.493 mkr, en um 720 mkr þriðja ársfjórðung árið áður. Munar þar mestu um gengismun og verðbætur lána sem voru jákvæð um 1.662 mkr á þriðja ársfjórðungi 2006, en um 851 mkr árið áður. Gengisvísitalan í lok tímabilsins var 122,4, en var 125,8 að meðaltali fyrir ársfjórðunginn.

Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 76 mkr en um 46 mkr þriðja ársfjórðung árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 1.830 mkr á móti 750 mkr hagnaði sama tímabil á fyrra ári. Hagnaður HB Granda hf. á þriðja ársfjórðungi ársins 2006 nam 1.521 mkr eftir að tekið hefur verið tilliti til áhrifa tekjuskatts, en var 585 mkr á sama tímabili síðasta árs.

Heildareignir félagsins námu 29.759 mkr í lok september 2006. Þar af voru fastafjármunir 25.200 mkr og veltufjármunir 4.559 mkr. Í septemberlok nam eigið fé félagsins 9.129 mkr og heildarskuldir námu 20.629 mkr. Eiginfjárhlutfall var 30,7%.

Á þriðja ársfjórðungi 2006 var heildarbotnfiskafli skipa félagsins um 13 þúsund tonn og heildaruppsjávarafli um 24 þúsund tonn.

Sala fasteignar

Í nóvember 2006 seldi HB Grandi frystigeymslu sína við Fiskislóð 32, Reykjavík, ásamt lóðarleiguréttindum, en hefur afnotarétt af henni til a.m.k. tveggja ára.