Rekstrartekjur HB Granda hf. árið 2008 námu 124 milljónum evra, samanborið við 141 milljónir evra árið áður.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 30 milljónir evra eða 24% af rekstrartekjum, en var 31 milljón evra eða 22% árið áður.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá HB Granda en félagið birtir nú uppgjör sitt í fyrsta sinn í evrum.

Fram kemur að slíkt uppgjör gefi betri mynd af afkomu og stöðu félagsins en uppgjör í íslenskum krónum, þar sem stærstur hluti tekna er í evrum, sem og stór hluti gjalda.  Þá hefur evran mest vægi í samsetningu eigna og skulda og þar með eigin fé.  Til samanburðar hefur ársreikningur ársins 2007 verið umreiknaður í evrur miðað við lokagengi þess árs.

Í uppgjörstilkynningunni kemur fram að áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 14 milljónir evra, en voru jákvæð um 6 milljónir evra árið áður.

„Inni í þessum lið fyrir árið 2008 telst gengismunur lána, sem er nú mun minni stærð en áður, þar sem hann ræðst eingöngu af innbyrðis breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla, en ekki af flökti á gengi íslensku krónunnar,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að fyrir árið 2007 er hins vegar færður allur gengishagnaður vegna styrkingar krónunnar, umreiknaður yfir í evrur.

Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1 milljón evra.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 5 milljónir evra, en hagnaður ársins var 16 milljónir evra.

Þessu veldur að skattframtal er gert í íslenskum krónum og verður þar umtalsvert gengistap vegna erlendra skulda, sem veldur skattafrádrætti.  Að auki er 3 milljónir evra færðar til tekna vegna lækkunar á skatthlutfalli úr 18% í 15%.  Hagnaður ársins 2007 var 20 milljónir evra.  Við samanburð á milli ára ber að hafa í huga að í byrjun árs 2007 varð nettóhagnaður af sölu skipa að fjárhæð 7 milljónir evra.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 296 milljónum evra í lok árs 2008. Þar af voru fastafjármunir 254 milljónir evra og veltufjármunir 42 milljónir evra.  Í árslok nam eigið fé 125 milljónum evra. Eiginfjárhlutfall var 42%, en var 35% í lok árs 2007. Heildarskuldir félagsins voru í árslok 171 milljón evra.

Framvirkir gjaldmiðlasamningar

Þá kemur loks fram að viðskiptabankar félagsins hafa krafið félagið um uppgjör á framvirkum gjaldmiðlasamningum að fjárhæð 3 milljónir evra og er sú fjárhæð til varúðar færð til skuldar á reikningum félagsins um áramót.

„Félagið telur þó að m.v. rétt uppgjör sé fjárhæðin 1,6 milljón evra og hefur þegar greitt hluta hennar í samræmi við það,“ segir í tilkynningunni.

Skipastóll og afli Í skipastól HB Granda hf. eru 5 frystitogarar, 3 ísfisktogarar og 4 uppsjávarfiskveiðiskip.  Á árinu 2008 var afli skipa félagsins 47 þúsund tonn af botnfiski og 126 þúsund tonn af uppsjávarfiski.