Hekla hf. skilaði 81 milljón króna hagnaði á liðnu ári eftir skatta. Framlegð fyrir afskriftir var nær 490 milljónir króna, en heildarvelta félagsins var 13.781 milljón króna. Framlegð jókst um nær 310 milljónir króna á milli ára. Tekjuaukning milli ára var 40%.

Rekstrargjöld Heklu hf. námu án afskrifta 13.291 millj. króna árið 2004 og hækkuðu rekstrargjöld um 37% frá árinu 2003 þegar þau námu án afskrifta 9.674 millj. króna.

Á árinu 2003 voru fjármagnsliðir neikvæðir um 275 millj. krónur en árið 2003 voru fjármagnsliðir neikvæðir um 92 millj. krónur.

Heildareignir Heklu hf. voru í árslok 2004 bókfærðar á 5.974 millj. króna samanborið við 5.664 millj. króna í árslok 2003. Heildarskuldir Heklu hf. í árslok 2004 námu 4.799 millj. króna samanborið við tæplega 4.570 millj. króna í árslok 2003.

Gengið hefur verið frá samningi við eigendur Kia ? Árfells um yfirtöku á umboði Kia á Íslandi. Tekur samningurinn gildi strax.

Það er mat stjórnenda Heklu hf. að bjart sé framundan í rekstri félagsins. Félagið hefur ráðist í fjárfestingar undanfarin ár sem styrkt hafa stoðir og innviði félagsins. Stjórn Heklu hf. hefur samþykkt áætlun árins 2005 þar sem gert er ráð fyrir enn frekari umsvifum og bættri afkomu.

Á aðalfundi í gær voru þeir Hjörleifur Jakobsson, Frosti Bergsson og Egill Ágústsson kjörnir í stjórn félagsins.