Hlutabréf í fjármálafyrirtækinu HSBC hækkuðu í verði um 2,3% í gær eftir að félagið greindi frá því að hagnaður á fyrri helmingi ársins hefði aukist um 25% frá því á sama tímabili í fyrra. Samtals nam hagnaður HSBC 10,89 milljörðum Bandaríkjadala, sem skýrist meðal annars af auknum tekjum af starfsemi félagsins í Asíu, fyrirtækjaviðskiptum og fjárfestingarbankastarfsemi. Kostnaður vegna afskrifaðra útlána í Bandaríkjunum jókst hins vegar töluvert á tímabilinu.