Rekstrartekjur samstæðu Íslenskra aðalverktaka hf. námu 10.498 milljónum króna á árinu 2005, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) var 1.259 milljónir króna. Hagnaður félagsins fyrir skatta, að teknu tilliti til fjármagnsliða nam 889 milljónum króna, en fjármagnsliðir voru nettó neikvæðir um 91 milljónir króna.

Að teknu tilliti til reiknaðra skatta nam hagnaður félagsins 729 milljónum króna á árinu 2005 eða ríflega tvöfallt meiri en árið á undan.

Afskriftir ársins námu 279 milljónir króna. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam 980 milljónum króna á árinu.

Heildareignir Íslenskra aðalverktaka hf. og dótturfélaga námu 8.656 milljónum króna í lok desember 2005. Heildarskuldir samstæðunnar voru 5.793 milljónir króna og bókfært eigið fé þann 31. desember 2005 var 2.863 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall var því 33%.

Veltufé samstæðu Íslenskra aðalverktaka hf. frá rekstri á árinu 2005 var 1.199 milljónir króna. Handbært fé í lok desember 2005 var 198 milljónir króna og veltufjárhlutfall var 1,56.

Vel gekk að afla félaginu nýrra verkefna á árinu 2005 auk þess sem áfram var haldið með verkefni frá fyrra ári. Talsverð aukning var á íbúðabyggingum félagsins og gekk félaginu einnig vel að afla verka á tilboðsmarkaði.

Á undanförnum árum hafa verkefni félagsins í varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli farið minnkandi á sama tíma og verkefni á almennum verktakamarkaði hafa margfaldast.

Á árinu 2005 var framlegð rekstrar af starfsemi félagsins innan varnarsvæða einungis um 3% af heildarframlegð félagsins. Nú liggur fyrir að varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli verður væntanlega að mestu lokað síðar á árinu en jafnframt er ljóst að það hefur óveruleg, ef nokkur áhrif á rekstur ÍAV og eru engar uppsagnir starfsmanna vegna þeirra breytinga fyrirsjáanlegar.

Hjá Íslenskum aðalverktökum hf. og dótturfélögum þess störfuðu að meðaltali 448 starfsmenn á árinu 2005 auk starfsmanna undirverktaka sem skipta hundruðum.

Stjórnendur ÍAV sjá veruleg og áhugaverð tækifæri á næstu árum til áframhaldandi sóknar og aukinna umsvifa í starfsemi félagsins og fjölþættingar á rekstri. Félagið hefur yfir að ráða fjölmörgum byggingarlóðum og skapar það félaginu áhugaverð verkefni í nánustu framtíð. Sala á íbúðahúsnæði hefur gengið vel það sem af er ári 2006.

Þá hefur félaginu einnig gengið vel að afla sér nýrra verkefna á tilboðsmarkaði það sem af er ári 2006 og ber þar hæst byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn og tengdra bygginga, en á næstu 4-6 árum verður bylting í uppbyggingu miðborgar Reykjavíkur og þar verður ÍAV í forystu um verklegar framkvæmdir.