Icebank hagnaðist um 1.798 milljónir króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2007 borið saman við 473 milljónir króna  fyrir sama tímabil í fyrra. Hækkunin samsvarar 280%. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Icebank. Ástæða þessarar miklu hagnaðaraukningar er innleystur gengishagnaður vegna sölu Exista.

Hagnaður á hlut þrefaldaðist og nam 2,4 krónum  borið saman við 0,8 krónum  á sama tíma í fyrra. Arðsemi eigin fjár á ársfjórðungnum nam 55,7% miðað við heilt ár í samanburði við 31,7% á sama tíma í fyrra. Samkvæmt tilkynningu Icebank er það ein mesta arðsemi meðal innlendra og erlendra fjármálafyrirtækja.

Þetta er í fyrsta sinn sem bankinn birtir  ársjórðungsuppgjör. Birtingin er einn liður í því að búa bankann undir skráningu í kauphöll sem er fyrirhuguð.

Hreinar vaxtatekjur námu 507 milljónum króna en voru 241 milljónir króna á sama tímabili í fyrra sem er 110% hækkun. Til samanburðar námu hreinar vaxtatekjur 1.254 milljónum króna fyrir allt árið 2006.  Heildarvaxtamunur nam 2,1% á tímabilinu samanborið við 1,8% fyrir allt árið 2006.

Heildareignir námu 116 milljörðum í lok ársfjórðungsins en voru 87milljarðar í árslok 2006. Þetta er þriðjungshækkun. Útlán til viðskiptavina jukust um 2,3 milljarða  á tímabilinu og námu 33,9 milljörðum í lok þess.


Eiginfjárhlutfall (CAD) var 19,2% í lok ársfjórðungsins en það var 17,0% í árslok 2006. Bókfært eigið fé bankans nam 13,8 milljörðum í lok ársfjórðungsins en var 12 milljarðar króna í árslok 2006.

Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri segir um uppgjörið:
?Nýliðinn ársfjórðungur var mjög góður. Afkoma bankans var góð, bjartsýni og sóknarhugur ríkir meðal starfsfólks og vinna við að innleiða nýja framtíðarsýn gengur vel. Eiginfjárstaða bankans er sterkari en nokkru sinni fyrr og gefur svigrúm til vaxtar. Nýlega var undirritaður samningur um langstærsta sambankalán bankans erlendis að fjárhæð 217,5 milljónir evra og með þátttöku 34 evrópskra banka. Þá var í síðasta mánuði ákveðið að flytja höfuðstöðvar bankans í glæsilegt nýtt húsnæði á Höfðatorgi sem verður tilbúið í ársbyrjun 2009. Við í bankanum horfum því fram á veginn full tilhlökkunar.?