Icebank hf. hagnaðist um 5.662 milljónir króna eftir skatta á árinu 2006 samanborið við 2.381 milljónir króna 2005. Þetta er rúmlega tvöföldun hagnaðar milli ára. Heildarhagnaður bankans 2006 samsvarar hagnaði á hlut að fjárhæð 8,5 kr. samanborið við 3,9 kr. árið 2005. Arðsemi eigin fjár 2006 nam 63,8% samanborið við 54,3% 2005 og 28,5% 2004 segir í tilkynningu til kauphallarinnar.

?Árið 2006 var hið besta í sögu Icebank. Við erum stolt af þeirri staðreynd að afkoma bankans hefur verið sérstaklega góð síðustu þrjú ár. Hagnaður og arðsemi af starfsemi bankans í heild hafa stóraukist. Sérhæfð lánastarfsemi bankans og gjaldeyris- og afleiðuviðskipti hafa vaxið umtalsvert í samræmi við breyttar áherslur í starfseminni. Bankinn er nú mun sterkari fjárhagslega en áður og betur í stakk búinn til að sækja fram og auka umsvifin verulega, hér á landi og sérstaklega erlendis, og hrinda þannig í framkvæmd spennandi framtíðarsýn hluthafanna,"  segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri.

Hagnaður eftir skatta hækkaði um 138% milli 2005 og 2006.  Hreinar vaxtatekjur jukust um 52% milli 2005 og 2006. Hreinar rekstrartekjur uxu um 107% milli ára.

Kostnaðarhlutfall er aðeins 12,8% samanborið við 18,8% 2005 og 35,1 árið 2004.

Virðisrýrnun útlána leiðir til tekjufærslu vegna gæða útlánasafnsins samanborið við þær fjárhæðir sem áður höfðu verið lagðar til hliðar til að mæta útlánatöpum.

Heildareignir námu 86,9 milljörðum króna í árslok 2006 samanborið við 65,7 milljarða í árslok 2005. Þetta er 32% hækkun.

Eiginfjárhlutfall (CAD) var 17,0% í árslok 2006 samanborið við 12,5% í árslok 2005. Bókfært eigið fé hækkaði á sama tíma úr 5,7 ma.kr. í 12,0 ma.kr. Hátt eiginfjárhlutfall gefur bankanum ágætt svigrúm til vaxtar.

Starfsfólki fjölgar um 20% milli ára vegna aukinna umsvifa bankans.

Bankaráð hyggst leggja til á aðalfundi bankans að ekki verði greiddur arður til hluthafa vegna ársins 2006 heldur verði allur hagnaður nýttur til að styrkja eigið fé bankans og þar með frekari uppbyggingu hans.