Icebank hagnaðist um 4.198 milljónir króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2007 borið saman við 1.759 milljónir króna á sama tímabili í fyrra sem samsvarar 138,6% aukningu. Er þetta mesti hagnaður á hálfsárstímabili í sögu bankans segir í frétt hans. Arðsemi eigin fjár var 59,5%, langt yfir yfirlýstum markmiðum um 18% eiginfjárarðsemi á ári.

Hagnaður á 2. ársfjórðungi nam 2.399 milljónum króna eftir skatta samanborið við 1.798 milljónir króna á 1. ársfjórðungi. Hagnaður á hlut dróst saman milli fjórðunga ársins, úr 2,40 í 2,10 kr. Þar sem uppgjör 2006 voru birt hálfsárslega verða ársfjórðungar 2006 og 2007 ekki bornir saman.

Hagnaður á hvern hlut fyrstu sex mánuði ársins var 4,44 kr. samanborið við 2,75 kr. í fyrra. Kostnaðarhlutfall var 10,0% miðað við 15,8% í fyrra og er kostnaðarhlutfall bankans með því lægsta sem gerist. Vaxtatekjur nær tvöfölduðust milli ára, voru 1.156 milljónir króna. Vaxtamunur jókst úr 1,8% á fyrri helmingi síðasta árs í 2,2% nú. Leitað var til erlendra banka um fjármögnun í byrjun árs og fékkst meira lánsfé en óskað var eftir sem sýnir glöggt sterka stöðu bankans á erlendum lánsfjármörkuðum.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Icebank, segir í tilkynningu að ánægjulegt sé að sjá góða afkomu bankans. ?Hagnaður á einum árshelmingi hefur aldrei verið meiri og arðsemi eigin fjár heldur áfram að vera á bilinu 50-60% sem er afar góður árangur. Samhliða fjölþættu innra uppbyggingarstarfi hefur markvisst verið unnið að því að festa nýja ímynd og áherslur bankans í sessi út á við og auka viðskiptin. Þessa gætir einkum í lánastarfsemi og gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum. Góð afkoma og sterk fjárhagsstaða leggja traustan grunn að áframhaldandi góðum árangri og uppbyggingu bankans, fyrst og fremst erlendis.?

Í frétt bankans kemur fram að starfsfólki hefur fjölgað um 40,4% á síðustu 12 mánuðum, mest í tekjuskapandi störfum. Laun, launatengd gjöld og annar rekstrarkostnaður Icebank nam 566 milljónir króna á fyrri helmingi ársins en var 394 milljónir króna í fyrra. Hækkunin er í samræmi við áætlanir. Afskriftareikningur útlána er 406 milljónir kr. sem er 1,2% af veittum útlánum og kröfum í júnílok 2007 og endurspeglar það gæði útlánasafns bankans.

Heildareignir hafa vaxið um 40,6% frá því í árslok 2006 eða úr 86,9 milljónum króna í 122,2 milljarða kr. Munar þar mestu um aukningu á afleiðusamningum úr 2,8 ma.kr. í 24,4 ma.kr. Eiginfjárgrunnur bankans nam 16,2 ma.kr. 30. júní 2007. Eiginfjárhlutfall skv. CAD reglum var 17,4% 30. júní en markmiðið er 10-12%. Hátt eiginfjárhlutfall gefur bankanum töluvert svigrúm til vaxtar.

Lánastarfsemi Icebank og önnur hefðbundin starfsemi hefur verið að eflast. Markvisst er unnið að því að styrkja þessa þætti þannig að bankinn verði síður háður sveiflum á verðbréfa- og gjaldeyrismörkuðum. Áætlað heildartap frá júnílokum og fram í miðjan ágúst vegna hræringa á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum síðustu vikur er tæplega 400 milljónir króna að teknu tilliti til skatta. Þrátt fyrir það er afkoman það sem af er árinu mjög góð. Bankinn býr við trausta eiginfjár- og lausafjárstöðu og er ágætlega í stakk búinn til að nýta hræringar á mörkuðum til fjárfestinga sem ætla má að hækki í verði þegar um hægist á ný. Icebank hefur ekki keypt verð, bréf, verðbréfasöfn eða afleiður tengdar annars flokks fasteignaveðlánum í Bandaríkjunum (e. subprime).