Á árinu 2009 nam hagnaður Iceland Express 586,6 milljónum króna eftir skattar. Er það viðsnúningur frá fyrra ári en tap af rekstri félagsins á árinu 2008 var um einn milljarður króna. Segir í tilkynningu að olíuverð hafi ráðið þar mestu.

Bókfært eigið fé Iceland Express í árslok var jákvætt um 414 milljónir króna og eru eignir félagsins metnar á tæpa tvo milljarða króna. Að mestu er um að ræða veltukröfur, meðal annars á ferðaskrifstifur. Segir í tilkynningu að þær hafi þegar verið greiddar.

„Rekstrarhorfur ársins 2010 eru góðar.  Ljóst er, að eldgosið í Eyjafjallajökli hafði í för með sér talsverðan kostnað og minni sölu en spár gerðu ráð fyrir.  Úr því rættist þó er líða fór á árið einkum vegna þess, hversu flugleiðin til Bandaríkjanna gekk vel.  Því er rekstur 2010 í samræmi við áætlanir.

Rekstrarhorfur 2011 eru mjög góðar, sala gengur vel og eru allar líkur á því, að farþegum félagsins fjölgi mikið.  Þá hefur starfsmönnum fjölgað og útlit er fyrir frekari fjölgun,“ segir í tilkynningu frá Iceland Express.