Í ljósi óvenjulegra aðstæðna á fjármálamörkuðum hefur stjórn Icelandair Group sent frá sér tilkynningu um óendurskoðað uppgjör og yfirlit um rekstur félagsins á fyrstu 8 mánuðum þessa árs.

Tekjur Icelandair Group á tímabilinu nema 72 milljörðum króna, sem er 65% aukning frá sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) er 6,3 milljarðar, sem er 43% aukning frá fyrra ári. Handbært fé í lok ágúst var 6,7 milljarðar króna.

„Rekstur félaga innan Icelandair Group hefur gengið vel á þessu ári. Tekjur hafa aukist verulega og afkoma batnað þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður, sem sýnir styrk og sveigjanleika félagsins. Sjóðstaða félagsins er góð og næsti stóri gjalddagi lána er í lok janúar 2009 vegna 2,5 milljarða króna skuldabréfs í eigu íslenskra aðila," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.

„Icelandair, stærsta fyrirtækið innan Icelandair Group,  nýtur þess nú að fyrr á árinu var gripið til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða í áætlunarfluginu í ljósi minnkandi eftirspurnar og hækkandi eldsneytisverðs. Dregið var úr framboði um 15% og kostnaður í rekstri lækkaður. Á haustmánuðum hefur verið unnið að markaðssókn fyrir Ísland erlendis í ljósi gengislækkunar og enn frekar dregið úr framboði á heimamarkaði.“

Icelandair Group mun birta uppgjör þriðja ársfjórðungs þessa árs 18. nóvember nk.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.