Hagnaður Icelandic Group nam 288 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt árshlutauppgjöri félagsins. Hagnaður þriðja ársfjórðungs nam 84 milljónir króna (1,0 milljónir evra). Vörusala þriðja ársfjórðungs var 32,6 milljarðar króna (367,9 milljónir evra) sem er  15% aukning frá fyrra ári. Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) var 1.202 milljónir króna (13,6 milljónir evra). Rekstrarhagnaður fyrir vexti og skatta (EBIT) 685 milljónir króna (7,7 milljón evra)

Vörusala fyrstu níu mánuði ársins var 98,5 milljarðar króna (1.113,0 milljónir evra). Vöxtur í tekjum nam 24% þar af var innri vöxtur 2% á fyrstu níu mánuðum ársins. Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) 3.095 milljónir króna (35,0 milljónir evra). Rekstrarhagnaður fyrir vexti og skatta (EBIT) 1.765 milljónir króna (19,9 milljón evra).
Handbært fé til rekstrar fyrir skatta og vexti 1,1 milljarðar króna (12,2 milljón evra). Heildareignir 83,0 milljarðar króna (937,2 milljónir evra). Eiginfjárhlutfall  á ársgrundvelli er 20,9% og arðsemi eigin fjár 1,5%.


Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandic Group segir um uppgjörið : ?Þær aðgerðir sem við höfum gripið til í rekstri ýmissa félaga innan Icelandic Group eru að skila bættum rekstrarárangri. Jafnframt hefur velgengni margra samstæðufélaga haldið áfram, svo sem Icelandic Iberica, Jeka Fish, Icelandic Asia, Seachill og Icelandic UK. Hráefnisverð hefur haldist hátt allt þetta ár sem hefur lækkað framlegð framleiðslufyrirtækja. Einnig drógu mikil hlýindi í Evrópu og Ameríku í júlí og ágúst úr sölu sem var undir áætlunum á þriðja ársfjórðungi. Við erum farin að sjá bættan rekstur hjá þeim einingum þar sem erfiðleikarnir voru mestir og á það sérstaklega við um Icelandic France og Coldwater í Bretlandi. Hjá Icelandic USA erum við að vinna eftir áætlun sem miðar að því að félagið skili ásættanlegri arðsemi á árinu 2007 en rekstur þessa árs er ekki ásættanlegur. Afkoma Pickenpack í ársfjórðungnum veldur vonbrigðum og er langt frá áætlunum. Fjórði ársfjórðungur er mjög mikilvægur í afkomu samstæðunnar og á það sérstaklega við um starfsemina í Evrópu. Við erum bjartsýn á að þær breytingar sem við höfum gripið til muni áfram skila sér í bættri afkomu á fjórða ársfjórðungi og á næsta ári.?