Hagnaður Icelandic Group af reglulegri starfsemi fyrir skatta nam rúmlega 2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins. Í tilkynningu frá félaginu segir að tölur félagsins bendi til áframhaldandi viðsnúnings.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) var 4,1 milljarður króna. Velta á fyrstu sex mánuðum ársins nam tæpum 80 milljörðum króna. Segir í tilkynningunni að arðsemi eigin fjár hafi verið 11% samanborið við 4,3% á síðasta ári. Hagnaður fyrir skatta jókst um 135% á milli ára.

„ Undanfarna mánuði hefur tekist að endurfjármagna stóran hluta af skuldum félagsins, þar af eru 10 milljarðar króna langtímaskuldir. Um er að ræða fjármögnunarsamninga með þátttöku bæði evrópskra og bandarískra lánastofnanna,“ segir í tilkynningunni.

Icelandic Group er eitt af tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum heims samkvæmt fréttaveitu Intrafish. Tekjur félagsins verða til á meginlandi Evrópu (40%), Bretlandseyjum (28%), í Norður-Ameríku (18%) og í Asíu (14%).

Forstjórinn ánægður með útkomuna

Í fréttatilkynningu Icelandic Group segist Finnbogi Baldvinsson, forstjóri félagsins, afar sáttur með útkomuna.

Hvaða forstjóri yrði ekki ánægður með 135% arðsemisaukningu á fyrstu sex mánuðunum eftir að hafa skilað besta rekstrarári í sögu félagsins árið 2009. En þessi árangur er ekki verk eins manns. Viðsnúningurinn er afrek allra starfsmanna Icelandic.

Endurfjármögnun er eitt helsta viðfangsefni stjórnenda í íslensku atvinnulífi í dag. Icelandic Group hefur náð mikilvægum áföngum á þessu ári í endurfjármögnun skulda félagsins. Samningar hafa tekist um langtímafjármögnun við erlenda banka upp á jafnvirði 10 milljarða íslenskra króna. Þetta eru nokkur tíðindi þar sem traust á íslensku efnahagslífi beið mikinn hnekki í hruninu. Ímynd Íslands á enn undir högg að sækja á erlendum vettvangi.  Samningar eins og þessir auka manni bjartsýni á framtíðina.

Íslendingar geta verið stoltir af því góða orðspori sem þeir hafa áunnið sér í alþjóðlegum sjávarútvegi á undanförnum áratugum. Það hverfur ekki á einni nóttu þrátt fyrir þau áföll sem dunið hafa yfir á síðustu misserum. Ég tel okkur eiga mikil sóknarfæri á ýmsum sviðum, en um leið er mikilvægt að endurreisn efnahagslífsins ljúki sem allra fyrst.

Samkeppni í sölu sjávarfurða, ekki síst á stórum neytendamörkuðum eins og í Evrópu og Bandaríkjunum, er gríðarlega hörð. Ljóst er að víðfeðmt sölunet Icelandic Group er eitt helsta vopn íslensks sjávarútvegs í þessari samkeppni. Því er það mikið fagnaðarefni að tekist hafi að snúa rekstri þessa öfluga fyrirtækis við og það sé farið að skila fjármunum til Íslands í gegnum eignarhald Landsbankans. Sá rúmlega 2 milljarða króna hagnaður sem orðið hefur til hjá félaginu síðustu 6 mánuði eru staðfesting á því að ákvörðun Landsbankans og hagsmunaaðila í sjávarútvegi um að vinna með fyrirtækinu á erfiðum tímum var afar skynsamleg.“