Hagnaður Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi var 3,3 milljarðar króna eftir skatta. Hagnaður eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins var 10,1 milljarður króna og var hann 5,9 milljarðar króna hjá bankanum og 4,2 milljarðar króna hjá tryggingafélaginu. Hagnaður fyrir tekjuskatt fyrstu níu mánuði ársins var 12,2 milljarðar króna, en hann var 4,9 milljarðar króna á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður var 0,33 krónur á hlut á þriðja ársfjórðungi og nam hagnaður á hlut samtals 1,01 krónu fyrstu níu mánuðina, sem er 124,4% aukning frá fyrra ári. Arðsemi eigin fjár var 53% en var 31% fyrstu níu mánuðina 2003.

Vaxtamunur var 2,6% en hann var 3,1% í fyrra. Eigin iðgjöld námu 6,0 milljörðum króna í janúar til september og eigin tjón námu 4,9 milljörðum króna. Kostnaður sem hlutfall af tekjum var 48% í bankastarfsemi og 31% í vátryggingarekstri.

Norska fjármálaeftirlitið samþykkti á fundi sínum í gær, mánudaginn 25. október, að mæla með því við fjármálaráðuneytið að kaup Íslandsbanka á KredittBanken í Noregi verði samþykkt. Í kjölfar þess samþykkis verður KredittBanken hluti af samstæðureikningi Íslandsbanka en þegar hafa 99,4% hluthafa samþykkt kauptilboðið.

Heildareignir námu 565 milljörðum króna hinn 30. september og höfðu eignir þá aukist um 27% frá áramótum. Heildareignir KredittBanken námu á sama tíma jafnvirði um 38 milljarða króna og áætlaðar heildareignir samstæðu eftir yfirtöku því liðlega 600 milljarðar króna.

Útlán námu 400 milljörðum króna hinn 30. september og höfðu aukist um 27% á fyrstu níu mánuðum ársins. Heildarútlán KredittBanken námu á sama tíma jafnvirði 28 milljarða króna og áætluð heildarútlán samstæðu eftir yfirtöku því samtals um 428 milljarðar króna.

"Íslandsbanki er í mikilli sókn um þessar mundir og ber uppgjörið þess skýr merki. Kröftugur vöxtur hefur verið í efnahag bankans og góður hagnaður af reglulegri starfsemi fyrstu níu mánuðina. Útlit er fyrir að 2004 verði enn eitt metárið hjá Íslandsbanka. Tekjugrunnur samstæðunnar er sífellt að stækka, m.a. með tilkomu vátryggingaviðskipta og með aukinni sókn á erlenda markaði. Bankinn stefnir nú að frekari vexti erlendis, sérstaklega í Noregi í kjölfar væntanlegrar yfirtöku á KredittBanken," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka í tilkynningu frá félaginu.