Íslandsbanki skilaði methagnaði á fyrstu níu mánuðum 2005. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 4.801 m.kr. eftir skatta, en var 3.653 m.kr. á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins var 15.358 m.kr. eftir skatta samanborið við 11.010 m.kr. á sama tímabili árið 2004, aukning um 40%. Rekstrartölur fyrir árið 2004 hafa verið aðlagaðar alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.

Hagnaður fyrir skatta nam 18.151 m.kr. fyrstu níu mánuði ársins, samanborið við 13.112 m.kr. á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður á hlut var 1,20 krónur á fyrstu níu mánuðum 2005 samanborið við 1,10 krónur á sama tímabili 2004. Hagnaður á hlut var 0,37 krónur á þriðja ársfjórðungi.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 34% á fyrstu 9 mánuðum ársins 2005, en var 61% á sama tímabili í fyrra. Hagsauki á tímabilinu var 9.370 m.kr. sem er svipað og á sama tíma 2004.

Hreinar vaxtatekjur voru 16.764 m.kr. á fyrstu 9 mánuðum 2005 og jukust um 90% frá fyrra ári. Þær námu 6.713 m.kr. á þriðja ársfjórðungi samanborið við 2.945 m.kr. á þriðja ársfjórðungi 2004.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum var 36,1% á fyrstu níu mánuðum 2005 og 35.9% á þriðja fjórðungi.

Vaxtamunur var 2,1% fyrstu níu mánuðina, en var 2,4% á sama tímabili í fyrra og er lækkunin að hluta til vegna innkomu BNbank í samstæðuuppgjör bankans. BNbank umbreytir og stækkar efnahagsreikning samstæðunnar.

Heildareignir samstæðunnar námu 1.319 milljörðum króna 30. september 2005 og höfðu þá aukist um 95% frá áramótum eða um 641 milljarða.

Lán og kröfur samstæðunnar námu 1.063 milljörðum króna 30. september og höfðu aukist um 105% á árshelmingnum.

Lán til annarra en fjármálafyrirtækja jukust um 53 milljarða eða um 5%, að teknu tilliti til styrkingar krónunnar og tilfærslu lána yfir á fjáreignir á gangvirði í gegnum rekstur.

Heildarinnlán námu 360 milljörðum króna í lok 3. ársfjórðungs og jukust um 102% frá áramótum.

Eignir í stýringu námu 311 milljörðum króna og jukust um 4% á ársfjórðungnum.

Eigið fé nam 76 milljörðum króna í lok september og var eiginfjárhlutfall á CAD grunni 12,3%, þar af A-hluti 9,4%.

Stjórn bankans hefur tekið til endurskoðunar fjárhagsleg markmið samstæðunnar til að mæta auknum vexti í takt við sterkari fjárhagslegar stoðir.