Hagnaður Íslandssjóða hf. eftir skatta var 124 milljónir króna á fyrri helmingi árs samanborið við 164 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Íslandssjóðir hf rekur verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Félagið er dótturfélag Íslandsbanka.

Rekstrargjöld félagsins námu 328 milljónum króna á fyrri hluta árs samanborið við 386 milljónir króna á fyrri helmingi árs í fyrra. Rekstrargjöld lækkuðu því um 14,9%. Hreinar rekstrartekjur námu 479 milljónum króna en voru 579 milljónir króna í fyrra og drógust saman um 17,1%.

Eigið fé í lok júni nam 1.424 milljónum króna en var 1.300 milljónir í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfall félagsins var 132,8% í lok tímabilsins. Heildareignir þess námu rúmum 3 milljörðum króna.

Fjármunir sjóða í stýringu Íslandssjóða námu um 127 milljörðum króna í lok júní samanborið við um 110 milljarða í árslok 2009. Félagið sér um stýringu og rekstur á 17 sjóðum.

Í lok júní voru fimm sjóðir í slitaferli hjá Íslandssjóðum. Það eru fyrirtækjaskuldabréfasjóðirnir Sjóður 1 og Sjóður 11 ásamt erlendum peningamarkaðssjóðum í norskum krónum, evrum og dollurum.