Hagnaður Íslenskra aðalverktaka var 532 milljónir króna árið 2006, samanborið við 729 milljónir króna árið áður, samkvæmt upplýsingum úr ársuppgjöri sem birtist í Kauphöllinni í dag.

Rekstartekjur námu 13,3 milljörðum króna árið 2006 samanborið við 10,5 milljarða króna árið áður.

Eigið fé nam 2,64 milljörðum króna árið 2006 en var 2,86 milljörðum árið 2005. Einfjárhlutfallið var 30,5% árið 2006 samanborið við 33,1% árið 2005.

Nokkur samdráttur var í íbúðarbyggingum félagsins á árinu 2006, en sala íbúðarhúsnæðis gekk áfram vel. Tekjur félagsins jukust um 27% á milli ára og gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti á starfsemi félagsins, segir í tilkynningu.

Í tilkynningunni segir vel gekk að afla félaginu nýrra verkefna á árinu 2006 auk þess sem áfram var haldið með verkefni frá fyrra ári. Verkefnastaða félagsins er góð.

Veruleg tækifæri eru til áframhaldandi sóknar fyrir félagið, bæði hvað varðar fjölþættingu í rekstri og aukinna umsvif í núverandi starfsemi. Byggingalóðir sem félagið hefur yfir að ráða eiga eftir að skapa félaginu áhugaverð verkefni á næstu árum. Stærsta einstaka verkefni félagsins um þessar mundir er bygging Tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn, en uppbyggingin á tónlistarhúsinu og tengdum mannvirkjum er einhver umfangmesta uppbygging sem átt hefur sér stað hér á landi.

Auk framangreindra verkefna vann ÍAV að mörgum öðrum spennandi verkefnum á árinu 2006, má þar nefna stækkun Lagafossvirkjunar, skrifstofubyggingu við Borgartún 26, bygging 14 hæða nýbyggingar við Grandhótel, byggingu Háskólatorgs við Háskóla Íslands auk fjölda íbúðarbygginga og annarra verkefna.

Nýlega hefur félagið gengið frá verksamningum um byggingu 2. áfanga Skuggahverfis fyrir 101 Skuggahverfi ehf. ásamt því að semja við Eignarhaldsfélagið Mörkin ehf. / Nýsi hf. um fullnaðarfrágang tæplega 80 íbúða fjölbýlishúss við Suðurlandsbraut 58-62.

Hjá Íslenskum aðalverktökum hf. og dótturfélögum þess störfuðu að meðaltali 554 starfsmenn á árinu 2006 auk starfsmanna undirverktaka sem skipta hundruðum.