Hagnaður samstæðu Íslenskra aðalverktaka hf. nam 30 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 299,2 milljón krónu hagnað á sama tíma árinu áður, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu 5.855 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2006. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) var 425 milljónir króna.

Rekstur ÍAV á fyrri helmingi ársins 2006 gekk í öllum megin atriðum samkvæmt áætlunum félagsins, en gengisfall krónunnar og verðbólga settu nokkuð mark á reksturinn ásamt háum skammtímavöxtum, segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir að vel hafi gengið að afla félaginu nýrra verkefna á fyrri hluta árs 2006 auk þess sem áfram verði haldið með verkefni frá fyrra ári. Verkefnastaða félagsins sé góð á næstu misserum og verður bygging Tónlistar- og ráðstefnuhúss við Austurhöfn ankeri í starfsemi félagsins á næstu árum.

Stjórnendur ÍAV sjá áfram áhugaverð tækifæri til áframhaldandi sóknar og aukinna umsvifa í starfsemi félagsins og fjölþættingar á rekstri. Félagið hefur yfir að ráða fjölmörgum byggingarlóðum og skapar það félaginu sérstöðu og áhugaverð verkefni í nánustu framtíð,bæði á sviði íbúðarbygginga og bygginga undir skrifstofu og þjónustustarfsemi, segir í tilkynningunni.