Hagnaður samstæðu Jarðborana fyrstu níu mánuði ársins 2005 var 510 milljónir króna samanborið við 321 milljón á sama tíma árið áður. Rekstrartekjur félagsins námu 3.561 milljón króna, en voru 2.680 milljónir árið 2004. Veltuaukning er því um 33%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 691 milljón króna en var 555 milljónir á sama tíma í fyrra. Afkoman er í góðu samræmi við þá niðurstöðu sem félagið gerði ráð fyrir þegar gengið var frá rekstrarmarkmiðum ársins.

Heildareignir samstæðunnar voru bókfærðar á liðlega 8,7 milljarða króna og skiptust þannig að fastafjármunir námu 4,2 milljörðum en veltufjármunir voru 4,5 milljarðar króna. Í lok tímabilsins nam eigið fé félagsins um 2,8 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall var 32,9%. Hlutafé samstæðu Jarðborana er 400 milljónir króna að nafnverði.

Að sögn Bents S. Einarssonar, forstjóra Jarðborana, gekk rekstur samstæðunnar að óskum á fyrstu níu mánuðum ársins 2005. Bent segir þetta bestu afkomu fyrirtækisins frá upphafi. Hann segir útlitið gott varðandi verkefni félagsins á næstu misserum, bæði á sviði framkvæmda við boranir og byggingastarfsemi.