Hagnaður Jarðboranna á fyrstu sex mánuðum ársins nam 178 milljónum króna samanborið við 75 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Hagnaðurinn jókst því um 140% milli ára. Rekstrartekjur Jarðborana námu 1.562 milljónum króna, en þær voru 596 milljónir á sama tíma árið á undan. Þess skal getið að nú kemur velta dótturfélaganna Björgunar og Einingaverksmiðjunnar af fullum þunga inn í rekstur samstæðunnar en á árinu 2003 var eingöngu um að ræða borrekstur Jarðborana.

Rekstrargjöld fyrirtækisins með afskriftum fyrstu sex mánuði ársins voru 1.242 milljónir, samanborið við 510 milljónir á sama tíma í fyrra.

Rekstrarhagnaður Jarðborana á fyrstu sex mánuðunum, fyrir fjármagnsliði og skatta, nam 320 milljónum króna en var á sama tíma á síðasta ári 87 milljónir.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að verkefnastaða samstæðu Jarðborana innanlands sem utan fyrir árið 2004 er afar góð og horfur eru á verulegri veltuaukningu á milli ára. Þar gætir að sjálfsögðu mikilla áhrifa dótturfélaganna sem koma nú af fullum þunga inn í samstæðuna á árinu 2004, en komu einungis inn á seinni hluta ársins 2003. Þar sem nú hefur verið gengið frá orkusölusamningum milli Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur við Norðurál, hefur óvissu um nýtingu jarðvarma til raforkuframleiðslu fyrir álverið verið eytt. Ákvörðun Norðuráls um að nýta jarðhita til að framleiða raforku er mikilvæg vísbending um að jarðvarminn er eftirsóknarverður kostur sem skoðaður verður enn frekar í framtíðinni. Það eru einnig mikilvæg tímamót að nú semur Norðurál beint um raforkukaup við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur en ekki með milligöngu Landsvirkjunar eins og ávallt hefur verið gert. Þetta er merki um þær mikilvægu breytingar sem eru að verða í orkumálum á Íslandi. Þessi jákvæða niðurstaða er borrekstri félagsins afar mikilvæg því fyrirvarar voru í samningum Jarðborana um boranir fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja vegna orkusölusamningsins við Norðurál.

Ágætlega horfir um verkefni erlendis og er verkefnastaða næstu mánuði góð. Kaupin á hinum nýja stóra bor Geysi frá Soilmec á Ítalíu breyta miklu í meiri möguleikum félagsins til útrásar almennt. Sóknarfæri í stórum erlendum verkefnum eru valkostir sem ekki hafa áður verið fyrir hendi og afar mikilvægt fyrir Iceland Drilling (UK) að nýta á komandi misserum.

Samstæða Jarðborana áætlaði í febrúar s.l. að rekstrartekjur ársins 2004 yrðu á bilinu 2.700 - 3.000 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) yrði á bilinu 25-27% af veltu. Félagið sér ekki ástæðu til að endurskoða þessa áætlun.