Hagnaður Johnson & Johnson, eins stærsta heilsuvöruframleiðanda heims jókst um 40% á fyrsta ársfjórðung og er að helst að þakka mikilli sölu Zyrtec ofnæmislyfinu sem fyrirtækið hóf að framleiða um mitt ár 2007 að sögn Bloomberg.

Hagnaður á fyrsta ársfjórðung nam 3,6 milljörðum dala (um 268 milljarðar íslenskra króna) sem gerir 1,26 dali á hlut. Þetta er nokkur breyting frá sama tíma í fyrra þegar hagnaður félagsins nam um 88 centum á hlut en þá þurfti félagið að afskrifa um 807 milljónir dala vegna misheppnaðra rannsókna sem félagið lét gera fyrir sig til að þróa nýjar vörur.

Tekjur Johnson & Johnson jukust um 8% á fyrsta ársfjórðung en auk Zyrtec ofnæmislyfsins hefur kveflyfið Sudafed rokselst og sá hluti sem snýr að lyfjum og lyfjaframleiðslu félagsins virðist ætla að ganga vel að mati Bloomberg en sala á lyfjum og lyfjatengdum vörum hefur aukist um 27%.

Gengi félagsins hefur hækkað um 7% á mörkuðum í Bandaríkjunum í dag en félagið hefur hækkað um 5,3% á milli ára.

Velgengni félagsins kemur þó ekki til af neinu. Í júlí síðastliðnum keypti félagið hlutabréf í sjálfu sér af öðrum hluthöfum fyrir um 10 milljarða dali. Ástæðan sem stjórn félagsins gaf fyrir kaupunum var að félagið vildi halda markaðsverðmæti sínu. Í sama mánuði kynnti félagið einnig um uppsagnir 4.820 manna eða um 4% starfsmanna.