Hagnaður bandaríska bankans JP Morgan (sem áður var fjárfestingabanki) nam á fyrsta ársfjórðungi þessa árs 2,1 milljarði Bandaríkjadala samanborið við 2,4 milljarða dali á sama tíma í fyrra. Hagnaður dregst því saman um 12,5% milli ára.

Þrátt fyrir minni hagnað milli ára er þetta meiri hagnaður en greiningaraðilar vestanhafs höfðu búist við en þeir gerðu ráð fyrir um 1,8 milljarða dala hagnaði.

Vegna aukins atvinnuleysis vestanhafs, sem síðan hefur leitt til aukinna vanskila, hafa afskriftir félagsins aukist um 11% á fyrsta ársfjórðungi.

Tekjur JP Morgan jukust þó um 45% milli ára og námu 25 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 16,9 milljarða árið áður. tekjuaukningu bankans má fyrsta og fremst rekja til yfirtöku hans á sparisjóðabankanum Washington Mutual.

Síðasta ár var ekki auðvelt fyrir bankann. Með hjálp bandarískra yfirvalda bjargaði bankinn öðrum fjárfestingabanka, Bear Stearns á síðustu stundu eins og frægt er en þá kostaði yfirtakan á Washington Mutual tæpa 2 milljarða dali.

Hagnaður af fjárfestingabankastarfssemi JP Morgan á fyrsta ársfjórðungi nam 1,6 milljörðum nú samanborið við tap upp á 87 milljónir daga í fyrra. Hagnaður af viðskiptabankaþjónustu bankans nam um 474 milljónum dala, samanborið við tap upp á 311 milljónir dala í fyrra.