JPMorgan, þriðji stærsti bankinn í Bandaríkjunum, tilkynnti í dag að hagnaður fyrirtækisins hefði lækkað um 34% á fjórða ársfjórðungi en bankinn hefur neyðst til að færa niður eignir tengdar undirmálslánakrísunni um 1,3 milljarða Bandaríkjadollara. Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum greiningardeildar Kaupþings.

Þar segir að jafnframt dró úr hagnaði vegna aukinna varúðarfærsla til að mæta hugsanlegum lánatöpum í framtíðinni. Hagnaður bankans lækkaði úr 4,53 milljörðum dollara í 2,97 milljarða dollara á milli ára. Þrátt fyrir það hækkuðu hlutabréf í fyrirtækinu um 32 sent í 39,49 dollara á hlut í New York í dag þar sem afskriftir vegna undirmálslána var minna en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir.