Hagnaður af rekstri Kaldbaks hf. á fyrstu 9 mánuðum ársins nam 4.311 mkr. fyrir reiknaða skatta en 3.614 mkr. að teknu tilliti til reiknaðra skatta. Samsvarandi tölur fyrir sama tímabil í fyrra voru annars vegar 864 mkr. hagnaður og hins vegar 738 mkr. hagnaður. Innleystur hagnaður eftir reiknaða skatta var 2.858 mkr. samanborið við 286 mkr. hagnað á sama tímabili í fyrra.

Heildareignir Kaldbaks hf. voru í lok tímabilsins 13.828 mkr. samanborið við 14.263 mkr. í lok ársins 2003. Eigið fé félagsins var 11.498 mkr. samanborið við 8.495 mkr. í desemberlok 2003. Skuldir og skuldbindingar námu samtals 2.330 mkr. í lok tímabilsins þannig að samtals skuldir og eigið fé námu 13.828 mkr.

Eignir í skráðum hlutabréfum námu 7.179 mkr. en eignarhlutar í óskráðum hlutabréfum námu 1.726 mkr. Skuldabréf og verðbréfasjóðir námu 1.250 mkr. og aðrar eignir námu samtals 3.762 mkr. í lok tímabilsins.

Á fyrstu 9 mánuðum ársins seldi Kaldbakur hf. alla eignarhluti sína í Tryggingamiðstöðinni hf., Íslandsbanka hf., Hraðfrystistöð Þórshafnar hf., Boyd Line Management Services og Sjöfn hf. Kaldbakur hf. hefur einnig selt hluta af eign sinni í Samherja hf. eða 10% eignarhlut. Kaldbakur hf. hefur keypt hlutabréf í Landsbanka Íslands, Straumi fjárfestingarbanka hf. og KB banka hf. auk rúmlega 8% eignarhlut í Norðurljósum hf. og um 10% hlut í Godfrey Holdings Ltd. en það félag rekur skartgripaverslanir í Bretlandi undir merkjum Goldsmiths.

Helstu eignir Kaldbaks hf. í lok september eru Landsbanki Íslands hf., Samherji hf., Straumur fjárfestingarbanki hf. og KB banki hf.

Þann 28. september s.l. keypti Burðarás hf. 76,77% hlutafjár í Kaldbaki hf. og við þau viðskipti myndaðist yfirtökuskylda af hálfu Burðaráss hf. Þann 4. október s.l. undirrituðu stjórnir Burðaráss hf. og Kaldbaks hf. samrunaáætlun og miðast sameining félaganna við 1. október 2004. Hluthafar Kaldbaks hf. fá 0,6378 krónur nafnverðs í Burðarási hf. fyrir hverja krónu nafnverðs í Kaldbaki hf.