Hagnaður ársins eftir skatta nemur 101,5 m.kr. samanborið við 43,6 m.kr. á árinu 2003. Eigið fé í árslok var 339,4 m.kr. (256,8 m.kr. í árslok 2003) og eiginfjárhlutfall 81% (76% árið 2003). Rekstrartekjur jukust um 17% milli ára eða úr 532,6 m.kr. í 622,3 m.kr. Rekstrargjöld á árinu voru 514,6 m.kr. samanborið við 483,0 m.kr. árið 2003 og nemur aukningin því tæpum 7%.

Eignarhaldsfélagið Verðbréfaþing hf. var stofnað árið 2002 um rekstur Kauphallar Íslands hf. og Verðbréfaskráningar Íslands hf. með það fyrir augum að auka hagræði í rekstri félaganna og auka samstarf þeirra. Félögin tvö eru rekin sem sjálfstæðar rekstrareiningar.

Umsvif á verðbréfamarkaði setja jafnan mark sitt á afkomu félagsins sem endurspeglar afkomu dótturfélaganna tveggja. Rekstrarskilyrði á árinu 2004 voru með besta móti en viðskipti með skráð verðbréf voru mjög lífleg á árinu.

Samtals námu rekstrartekjur Kauphallar Íslands 427 m.kr. og rekstrargjöld 351 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði var 77 m.kr. samanborið við 36 m.kr. árið 2003. Hagnaður nam 74 m.kr. en var 36 m.kr. árið 2003. Arðsemi eigin fjár var 43,9% samanborið við 24,3% árið áður.

Í rekstraráætlun var reiknað með 25 m.kr. hagnaði. Veigamesta frávikið frá rekstraráætlun var í tekjum af veltugjöldum. Þær voru 56 m.kr. umfram áætlun og hækkuðu um 39% milli ára í takt við aukningu á veltu skráðra verðbréfa.

Afkoma Verðbréfaskráningar Íslands hf.

Í heild voru rekstrartekjur Verðbréfaskráningar Íslands um 197½ m.kr. og rekstrargjöld tæplega 166½ m.kr. árið 2004. Rekstrarhagnaður ársins nam því um 31 m.kr. Að teknu tilliti til fjármagnsliða og skatta nam hagnaður ársins 27½ m.kr. samanborið við 20 m.kr. árið 2003.

Í áætlun ársins 2004 var gert ráð fyrir um 10 m.kr. hagnaði. Aukinn hagnaður skýrist fyrst og fremst af því að rekstrartekjur voru um 18 m.kr. hærri en gert var ráð fyrir í áætlun. Hækkun tekna frá áætlun skýrist aðallega af auknum tekjum af skuldabréfaútgáfu. Rekstrarkostnaður var á áætlun á árinu 2004.

Horfur

Horfur fyrir árið 2005 eru góðar. Eins og að framan greinir hafa umsvif á verðbréfamarkaði töluverð áhrif á afkomu félagsins. Í rekstraráætlun fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir svipuðu umfangi viðskipta og á síðastliðnu ári. Gert er ráð fyrir að tekjur lækki heldur á árinu 2005 m.a. vegna lækkunar á gjaldskrá og breytinga í skuldabréfaútgáfu. Hins vegar má reikna með að kostnaður hækki sem m.a. má rekja til áframhaldandi vinnu við þau þróunarverkefni sem hafist var handa við seint á árinu 2004. Reiknað er með að hagnaður félagsins á árinu 2005 verði um 57 m.kr.

Aðalfundur Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing hf. verður haldinn fimmtudaginn 17. mars næstkomandi. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 50 m.kr. arður.