Hagnaður af sölu Kaupþings banka á hlutum í fjármálaþjónustufyrirtækinu Exista, sé miðað við útboðsgengið 21,5 krónur á hlut, og gengishagnður af bókfærðum eignarhlut á gangvirði nemur 23,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Bankinn hefur selt samtals um 1.100 milljónir hluta í Exista á þriðja ársfjórðungi í tengslum við skráningu Exista í Kauphöll Íslands, en hlutafjárútboði félagsins lauk í gær og áætlað er að skrá félagið á hlutabréfamarkað þann 15. september.

Kaupþing banki seldi í gær samtals 130 milljónir hluta eða sem nemur 1,2% af heildarhlutafé í Exista í vel heppnuðu almennu útboði og útboði til starfsmanna Exista á genginu 21,5 krónur á hlut.

Bankinn átti í lok annars ársfjórðungs 20,9% heildarhlutafjár í félaginu. Þann 1. ágúst seldi bankinn 6,1% eignarhlut til níu íslenskra lífeyrissjóða og þann 8. september seldi bankinn 2,8% til fagfjárfesta. Innleystur hagnaður af sölu hlutanna á ársfjórðungnum nemur samtals 10,6 milljörðum króna.

Eignarhlutur Kaupþings banka í Exista eftir sölu hlutanna í gær nemur nú 10,8% af heildarhlutafé. Við skráningu Exista í Kauphöll Íslands verður allur eignarhlutur bankans í félaginu bókfærður á gangvirði. Miðað við gengið sem hlutirnir í Exista voru seldir á í almenna útboðinu er óinnleystur gengishagnaður 10,8% eignarhluta bankans í Exista 13,2 milljarðar króna. Heildarhagnaðurinn nemur því 23,8 milljörðum króna.

Eins og kom fram í ræðu Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings banka, á aðalfundi bankans í mars síðastliðnum stefnir bankinn að því að greiða allt að helming af upphaflegum hlut bankans í Exista í formi auka arðgreiðslu til hluthafa. Miðað er við að arðgreiðslan eigi sér stað á fjórða ársfjórðungi. Hluthöfum bankans verður greint nánar frá tilhögun hinnar fyrirhugðu arðgreiðslu síðar.

Með sölu á samtals 10,1% eignarhlut í Exista hefur bankinn dregið verulega úr eign sinni í óskráðum félögum en stefna stjórnar bankans er að eignarhluti bankans í skráðum og óskráðum félögum fari ekki yfir 35% af eiginfjárgrunni bankans.

Innleystur og óinnleystur hagnaður af hlutum bankans í Exista mun hafa töluverð áhrif á eigin fé bankans. Við lok annars ársfjórðungs, þann 30. júní, var eiginfjárhlutfall bankans 8,7% (eiginfjárþáttur A). Miðað við stöðu efnahagsreiknings bankans þá, myndi eiginfjárhlutfallið hækka um 0,8 prósentustig.