Hagnaður Kaupþings banka á öðrum ársfjórðungi 2006 nam 13 milljörðum króna samanborið við 13,7 milljarða á öðrum ársfjórðungi fyrir ári síðan. Hagnaðurinn er yfir væntingum greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir um 10 milljarða króna hagnaði á tímabilinu.

Í uppgjörini sem kynnt var í morgun kemur fram að hagnaður hluthafa á fyrri helmingi ársins 2006 nemur nú 31,8 milljörðum samanborið við 24,8 milljarða árið á undan. Arðsemi eigin fjár á fyrri helmingi ársins var 36,2% á ársgrundvelli.

Hagnaður á hlut á fyrri helmingi ársins var 47,9 krónur (37,9 kr. á sama tímabili 2005) Hagnaður á hlut á öðrum ársfjórðungi var 19,6 krónur (20,9 kr. á sama tímabili 2005).

Hreinar vaxtatekjur námu 24,9 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins sem er aukning um 81,6% frá sama tímabili 2005. Gengishagnaður nam 10,9 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins og hefur þá dregist saman um 41,2% frá sama tímabili 2005.

Rekstrartekjur námu 66,5 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins og heildareignir námu 3.552 milljörðum króna í lok júní og hafa aukist um 11% á föstu gengi frá áramótum en um 39,8% í krónum.

Kaupþing banki seldi 24% eignarhlut sinn í VÍS eignarhaldsfélagi hf. til fjárfestingarfélagsins Exista í maí síðastliðnum.


Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka segir um uppgjörið:

?Þetta uppgjör sýnir að rekstur bankans gengur vel þrátt fyrir óstöðugt markaðsumhverfi. Það er ánægjulegt að sjá undirliggjandi vöxt í hreinum vaxtatekjum og þóknunum. Hreinar vaxta- og rekstrarleigutekjur standa undir rekstrarkostnaði bankans. Kostnaður sem hlutfall af tekjum var á fyrri helmingi ársins 41% og arðsemi eiginfjár var 36% á ársgrundvelli. Horfur eru almennt góðar fyrir þriðja fjórðung þessa árs og því ekki tilefni til að ætla annað en að bankinn standi áfram undir settum arðsemismarkmiðum."