Hagnaður Kaupþings eftir skatta á fyrri helmingi ársins jókst um 43,8%, í 45,8 milljarða króna miðað við sama tímabil árið 2006.

Arðsemi eigin fjár á fyrri helmingi ársins var 32,0% á ársgrundvelli og hagnaður á hlut 62,2 krónur (47,9 krónur á sama tímabili 2006).

"Mikil aukning þóknanatekna einkennir þetta uppgjör og jafnframt er góður vöxtur í hreinum vaxtatekjum," segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri bankans í tilkynningu. "Ánægjulegt er að sjá hve innlán hjá bankanum hafa aukist það sem af er árinu en þau nema nú 46% af heildarútlánum."

Hagnaður hluthafa eftir skatta á öðrum ársfjórðungi jókst um 95,5%, í 25,5 milljarða króna miðað við sama tímabil árið 2006.

Rekstrartekjur á öðrum ársfjórðungi jukust um 66,8%, námu 51,8 milljörðum króna.

Hreinar vaxtatekjur á öðrum ársfjórðungi jukust um 38,0%, námu 19,8 milljörðum króna.

Hreinar þóknanatekjur á öðrum ársfjórðungi jukust um 65,4%, námu 15,2 milljörðum króna.

Rekstrarkostnaður á öðrum ársfjórðungi jókst um 28,5%, í 19,0 milljarða króna.

Bankinn bókar 4,3 milljarða króna hagnað vegna sölu á dótturfélagi sínu, Eik fasteignafélag hf. á öðrum ársfjórðungi.

Heildareignir námu 4.570,4 milljörðum króna í lok júní 2007 - jukust um 23,3% á föstu gengi frá áramótum, en um 12,7% í íslenskum krónum.