Hagnaður KB banka á öðrum ársfjórðungi nam 3,5 mö.kr. sem er talsvert undir spá Greiningar Íslandsbanka (4,4 ma.kr.) og Landsbankans (7,4 ma.kr.). Í Morgunkornum Greiningar Íslandsbanka segir að á heildina litið megi segja að helstu tekjulindir bankans skili ekki eins miklu og reiknað var með auk þess sem launakostnaður sé nokkuð hærri en búist hafi verið við. Framlag í afskriftareikning var í samræmi við væntingar.

Hreinar vaxtatekjur námu 3.165 m.kr. og er greinilegt að mikil samkeppni í útlánum hefur leitt til lækkunar á vaxtamun. Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu heildarfjármagns var 2,4% á fyrsta ársfjórðungi en 2,2% á fyrstu sex mánuðunum, sem þýðir að vaxtamunurinn er nálægt 2,0% á öðrum ársfjórðungi. Nettó þóknunartekjur námu 2.584 m.kr. sem er um 1.200 m.kr. lægra en spá okkar gerði ráð fyrir. Þá var gengismunur 2.146 m.kr. á tímabilinu eða um 500 m.kr. lægra en reiknað var með. Hins vegar voru tekjur af hlutabréfum og öðrum eignum mun hærri en spáð og námu samtals 2.520 m.kr. en þar af er stærstur hluti vegna arðgreiðslu frá Singer & Friedlander fjárfestingarbankanum sem KB banki á um 20% í.

Á morgun verður haldinn kynningarfundur á vegum KB banka þar sem ítarlegri skýringar á afkomu bankans koma fram en þær eru með frekar skornum skammti í fréttatilkynningu. Lauslega er komið inn á að rekstur dótturfélaga utan Íslands gangi vel, einkum í Luxemborg, Svíþjóð, Englandi, Finnlandi og Danmörku.