Rekstrartekjur samstæðu Kögunar hf. námu samtals 1.573 mkr. á fyrri árshelmingi 2004, samanborið við 511 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2003. Veltuaukning er 1.062 mkr. eða 208%. Rekstrargjöld námu samtals 1.390 mkr. en rekstrargjöld voru 430 mkr. á fyrri árshelmingi 2003. EBITDA er því 183 mkr. eða 12%.

Á reikningstímabilinu var farið í umfangsmiklar breytingar og endurnýjun á húsnæði LandsteinaStrengs hf. að Ármúla 7 auk þess sem lagfæringar voru gerðar á Grjót­hálsi 5 þar sem Hugur hf. er nú til húsa. Ennfremur var farið húsnæðisbreytingar að Lynghálsi 9. Óreglulegur kostnaður að fjárhæð um 40 mkr. vegna þessara framkvæmda hefur allur verið gjaldfærður á tímabilinu í samræmi við reiknings­skilahefðir Kögunar. Hefðu framkvæmdirnar verið eignfærðar og afskrifaðar á lengri tíma, væri EBITDA 223 mkr. eða 14,2%.

Afskriftir eru 10 mkr. en voru 5 mkr. á sama tímabili árið 2003. Hagnaður fyrir fjármagnsliði nemur samtals 173 mkr. en var 75 mkr. á sama tímabili árið 2003. Hagnaður fyrir fjármagnsliði hækkar þannig um 98 mkr. eða 131% á milli ára.

Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld nema samtals 38 mkr. en voru 25 mkr. á sama tímabili á árinu 2003. Meginástæða þessarar hækkunar á fjármunatekjum er söluhagnaður hlutabréfa samtals að fjárhæð 56 mkr. Á tímabilinu var seldur 10% hlutur í Þekkingu hf., 33% hlutur í Landsteinum Nederland BV í Hollandi og 11% hlutur í Alpha Landsteinar Ltd. í Bretlandi. Vaxtatekjur námu 33 mkr. og vaxtagjöld 51 mkr. Vega þar þyngst vextir af 500 mkr. skuldabréfaláni sem boðið var út í árslok 2003 vegna kaupa Kögunar hf. á Hug hf.

Hagnaður samstæðunnar fyrir tekjuskatt á fyrri árshelmingi 2004 er samtals 211 mkr. en var 100 mkr. fyrir sama tímabil á árinu 2003. Hækkunin milli ára er 111 mkr. eða 111%.

Gjaldfærður tekjuskattur er áætlaður sem 18% af afkomu fyrir skatta eða 36 mkr. Eignar­skattur er áætlaður sem hlutfall af eignarsköttum síðasta árs en færist nú með öðrum rekstrar­kostnaði. Sú breyting hefur orðið frá fyrra ári að í samstæðureikningi er nú eign­færð reiknuð tekjuskattsinneign að upphæð 263 mkr. vegna ójafnaðs skattalegs taps dótturfélaga Kögunar. Inneign þessi nýtist dótturfélögunum á komandi árum að því marki sem þau verða rekin með hagnaði.

Hagnaður samstæðunnar eftir tekjuskatt tímabilið janúar ? júní árið 2004 er því 174 mkr. en var 81 mkr. á sama tímabili árið 2003. Aukningin er 93 mkr. eða 114%. Hagnaður tímabilsins á hverja krónu hlutafjár er 1,46 kr. og eykst um 57% frá fyrra ári.

Heildareignir Kögunar hf. hinn 30. júní 2004 námu 3.418 mkr. Á sama tíma voru heildarskuldir samstæðunnar 1.515 mkr.

Eigið fé Kögunar hf. í lok júní 2004 er 1.903 mkr. en var 1.765 mkr. í lok ársins 2003. Frá ársbyrjun 2004 er gerð sú breyting á reikningsskilaaðferðum félagsins að viðskipta­vild er ekki afskrifuð línulega á tilteknum árafjölda heldur verður framkvæmt árlegt virðisrýrnunarpróf til að meta verðmæti hennar. Þetta er gert í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Við greiningu eigin fjár félagsins vísast til skýringar nr. 22 í árshlutareikningi.

Veltufé frá rekstri á tímabilinu janúar til júní 2004 nam samtals 159 mkr. samanborið við 68 mkr. á sama tímabili 2003. Veltufjárhlutfall er 1,9, eiginfjárhlutfall er 56%, innra virði hlutafjár er 15,9 og arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli er 21%.