Rekstur KredittBanken, dótturfélags Íslandsbanka, gekk mjög vel á fyrstu 6 mánuðum ársins 2005. Hagnaður bankans var 18,9 milljónir norskra króna samanborið við 7,3 milljónir króna fyrsta hálfa árið 2004. Hagnaðurinn skýrist af meiri vaxtamun í formi betri fjármögnunar og aukningu á öðrum tekjum.Útlán hafa aðeins dregist saman á fyrri hluta ársins en gæði lánasafnsins hafa að sama skapi aukist talsvert. Einnig hefur KredittBanken verið umboðsaðili fyrir mörg ný lán sem eru færð til bókar hjá Íslandsbanka. Þetta eru lán sem eru af þeirri stærðargráðu að KredittBanken getur ekki veitt lánin beint til viðskiptavina. Í heildina hefur því orðið aukning í starfsemi bankans.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að KredittBanken gerði opinbert þann 11. apríl að bankinn byði í alla hluti í FactaNor As. KredittBanken fékk í júní leyfi frá yfirvöldum til að eiga FactaNor og bankinn á nú alla hluti í félaginu. FactaNor var stofnað árið 1989 og velti árið 2004 um 2,8 milljörðum norskra króna. Hjá fyrirtækinu starfa 24 manns og hagnaður eftir skatta var 3,3 milljónir norskra króna árið 2004. FactoNor kom inn í reikninga KredittBanken þann 1. júní sl.

Jostein Sætrenes tekur til starfa sem framkvæmdastjóri KredittBanken þann 15. ágúst n.k. Sætrenes starfaði áður hjá Bourbon Offshore AS. Sætrenes tekur við af Frank O. Reite sem nýverið var gerður að framkvæmdastjóra yfir starfsemi Íslandsbanka í Noregi og á sæti í framkvæmdastjórn Íslandsbanka.