Hagnaður af kjarnastarfsemi Landic Property nam 5.362 milljónum kr. á fyrstu sex mánuðum ársins en rekstrartekjur tímabilsins voru 16.755 milljónir kr.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá Landic Property.

Hagnaður tímabilsins nam 435 milljónum króna samanborið við hagnað 4,3 milljarða á sama tíma í fyrra.

Heildareignir félagsins í lok júní námu 592.008 milljónum króna en eigið fé félagsins ásamt tekjuskattskuldbindingum  og víkjandi lánum var samtals 117.324 milljónir kr., sem er 20% af heildareignum í lok júní 2008.

Tekst að standa vörð um verðmæti félagsins

Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Landic Property segir í tilkynningunni að rekstu á kjarnastarfsemi félagsins gengur vel „eins og glögglega kemur fram í afkomu félagsins.“

„Við höfum auðvitað orðið vör við umhverfið í fjármálaheiminum eins og öll félög með alþjóðlega starfsemi.  En okkur hefur tekist að standa vörð um verðmæti félagsins og náð árangri í þessu umróti,“ segir Skarphéðinn.

„Efnahagsreikningurinn endurspeglar vel stærð og umsvif Landic Property, bæði á íslenskum og alþjóðlegum mælikvarð. Í reikningnum kemur fram að mál Keops Development hefur verið erfið og það var slæmt að salan á félaginu gengi ekki eftir.  En við erum að fara í saumana á rekstri Keops Development með það að markmiði að hámarka þá stöðu sem býr í félaginu.”