Hagnaður Landsafls á fyrstu sex mánuðum ársins nam 206 milljónum króna samanborið við 57 milljónir á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur félagsins námu 374 milljónum króna og jukust um 12% frá árinu áður. Rekstrargjöld án afskrifta stóðu nokkurn veginn í stað og nam hagnaður fyrir afskriftir 272 milljónum króna eða 73% af tekjum á móti 232 milljónum króna í fyrra sem gerir um 69% af tekjum.

Landsafl hf. er fasteignafélag sem sérhæfir sig í eignarhaldi, umsýslu, rekstri og útleigu fasteigna. Markmið félagsins er að eiga og reka fasteignir í langtíma- og/eða skammtímaútleigu. Félagið hefur yfir að ráða um 100 þús. fermetrum af húsnæði, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði, vörugeymslum o.s.frv. Viðskiptavinir félagsins eru fjölmargir, ríki og sveitarfélög, félög skráð í Kauphöll Íslands sem og ýmis önnur stór og smá fyrirtæki.

Afskriftir voru engar á þessu ári samanborið við 90 milljóna króna afskriftir á síðasta ári. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld nam því 271 milljón króna og jókst um 91% milli ára. Fjármagnsgjöld námu 251 milljón króna samanborið við aðeins 95 milljónir í fyrra. Hagnaður eftir fjármagnsgjöld nam 20 milljónum króna samanborið við 47 milljónir árið áður.

Það sem skýrir aukinn hagnað milli ára er matsbreyting fjárfestingaeigna sem að nemur 229 milljónum króna. Þær breytingar eru gerðar á reikningsskilaaðferðum félagsins að fasteignir eru nú flokkaðar sem fjárfestingaeignir og metnar á gangverði í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal nr. 40 (IAS). Við mat á gangverði fjárfestingaeigna er stuðst við núvirt áætlað framtíðarsjóðsflæði einstakra eigna.

Afkoma tímabilsins er viðunandi að mati stjórnenda Landsafls hf. Horfur í rekstri félagsins á árinu 2004 eru ágætar þrátt fyrir mikið framboð leiguhúsnæðis. Endanleg niðurstaða mun þó meðal annars ráðast af skilyrðum á fjármagnsmörkuðum og gengisskráningu íslensku krónunnar.