Hagnaður Landsbankans fyrir skatta nam 13,1 milljarði króna og 11,0 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 56% á tímabilinu.

Hreinar vaxtatekjur námu 9,4 milljörðum króna samanborið við 6,2 milljarða króna fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2004 og jukust þær um 51%.

Hreinar þjónustutekjur námu 7,6 milljörðum króna og jukust um 93% eða 3,7 milljarða króna samanborið við fyrstu sex mánuði fyrra árs.

Vaxtamunur lækkaði um 0,5 prósentustig eða úr 2,6% í 2,1%.

Gengismunur og aðrar rekstrartekjur námu 7,7 milljörðum króna samanborið við 5,4 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2004.

Tekjur af erlendri starfsemi rúmlega þrefölduðust á fyrri árshelming 2005 samanborið við sama tímabil á fyrra ári eða úr 1,2 milljarði í 4,0 milljarða króna.

Hreinar rekstrartekjur jukust um 58% eða 9,1 milljarð króna og námu 24,7 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2005.

Kostnaðarhlutfall bankans var 36%.

Virðisrýrnun útlána og krafna nam 2,7 milljörðum króna.

Efnahagsreikningur:

Heildareignir bankans jukust um 285 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.022 milljörðum króna í lok júní 2005.

Útlán og kröfur jukust um 214 milljarða króna og námu 828 milljörðum króna í lok tímabilsins.

Eigið fé bankans nam 59 milljörðum króna og hækkaði það um 56% á tímabilinu. Bankinn gaf út nýtt hlutafé fyrir 11,4 milljarða króna í lok mars 2005.

Eiginfjárhlutfall (CAD) var 12,7% í lok júní 2005. Eiginfjárþáttur A var 9,0%.

Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri segir í yfirlýsingu til Kauphallarinnar:

?Afkoma bankans á fyrri helming ársins er sérstaklega góð. Ef horft er til þróunar hreinna vaxtatekna og hreinna þjónustutekna, sem eru grunnþættir í rekstri bankans, sést hvað bankinn hefur styrkt sig. Vaxtamunur og þjónustutekjur námu alls 17 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 10 milljarða króna fyrir sama tímabil á árinu 2004 og 7,2 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2003. Þannig hefur grunntekjumyndun samstæðunnar aukist um tæp 140% á tveimur árum þrátt fyrir að vaxtamunur hafi lækkað á þessu tímabili úr 3% í 2,1%. Heildareignir bankans eru nú ríflega 1.000 milljarðar króna eða 1 trilljón eins og menn myndu segja í vesturheimi. Eignir bankans jukust um 285 milljarða króna á tímabilinu, en til gamans má geta að heildareignir bankans voru 285 milljarðar króna vorið 2003. Landsbankinn hefur verið að styrkjast mjög að undanförnu og rekstrarniðurstaðan nú endurspeglar það."