Hagnaður Landsbanka Íslands nam 26,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hefur hann aukist um 61%, en hagnaðurinn nam 16,208 milljörðum króna á sama tímabili í fyrra, segir í tilkynnningu til Kauphallarinnar.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 33% á ársgrunni.

Grunntekjur samstæðunnar (vaxtamunur og þjónustutekjur) námu 52,3 milljörðum króna og jukust um 24,6 milljarða króna eða 89%.

Kostnaðarhlutfall tímabilsins reiknast 42,7%.

Gengismunur og fjárfestingatekjur námu 12,3 milljörðum króna samanborið við 13,9 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2005.

Tekjur af erlendri starfsemi námu 30,2 milljörðum króna eða 47% af heildartekjum samanborið við 6,7 milljarða króna og 16% á fyrstu níu mánuðum ársins 2005.

Heildareignir bankans námu 1.962 milljörðum króna í lok september 2006 og hafa þær aukist um 557 milljarða króna það sem af er ári. Að stórum hluta er aukningin tilkomin vegna veikingar íslensku krónunnar og tilheyrandi verðbólguáhrifa. Heildareignir námu 22,1 milljarði evra í lok september 2006 samanborið við 18,8 milljarða evra í byrjun ársins.

Innlán viðskiptavina jukust um 54% á tímabilinu og námu 513 milljörðum króna í lok september 2006. Nema innlánin tæplega 40% af heildarútlánum til viðskiptavina.

Eiginfjárhlutfall (CAD) var 15,0% í lok september 2006. Eiginfjárþáttur A var 13,0%.

Hagnaður bankans nam 5,744 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 5,105 milljarða króna á sama tíma í fyrrra, segir í tilkynningunni.

"Afkoma Landsbankans það sem af er ári er mjög góð. Hagnaður eftir skatta nam rúmlega 26 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár 33%. Grunntekjur bankans hafa nánast tvöfaldast og námu hreinar vaxtatekjur og þjónustutekjur 52,3 milljörðum króna. Þá halda tekjur af erlendri starfsemi áfram að aukast en þær nema nú 47% af heildartekjum samstæðunnar, " segir Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans.

"Endurspeglar það góða afkomu og vöxt erlendra dótturfélaga og erlendra starfsstöðva móðurfélagsins. Undanfarið höfum við lagt mikla áherslu á að fjölga fjármögnunarleiðum bæði með skuldabréfaútgáfum á nýjum mörkuðum og innlánaafurðum á þeim mörkuðum sem við störfum. Innlán sem hlutfall af útlánum til viðskiptavina eru tæplega 40% samanborið við 34% í byrjun ársins. Stefnir bankinn á að auka það hlutfall enn frekar. Nýjasta innlánaafurð bankans á Bretlandsmarkaði, Icesave, hefur vakið mikla athygli og lofar góðu um framhaldið," segir Sigurjón.

"Rekstur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins gekk mjög vel og er góður hagnaður af öllum starfsþáttum. Aðstæður á sviði erlendrar fjármögnunar hafa haldið áfram að batna eftir ákveðinn óróa í byrjun ársins. Bankinn lauk við fyrstu útgáfu sína á bandaríska skuldabréfamarkaðnum á nýliðnum ársfjórðungi. Um var að ræða 2,25 milljarða dollara lán, en heildareftirspurn í útboði lánsins nam um 4 milljörðum dollara. Ber það vott um hversu gott aðgengi Landsbankinn hefur að erlendum lánamörkuðum," segir Halldór J. Kristjánsson bankastjóri Landsbankans.

"Staða Landsbankans er sterk, fjármögnunar- og tekjustoðir bankans hafa styrkst jafnt og þétt á undanförnum misserum jafnframt því sem eiginfjárstaða bankans er mjög traust," segir Halldór.