Hagnaður Landsvaka hf. var 3,24 milljónir króna fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 42,55 á sama tíma árinu áður, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Landsvaki hf. rekur verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði Landsbankans.

Á fyrri hluta árs 2006 útvíkkaði Landsvaki vöru- og þjónustuframboð sitt með stofnun þriggja nýrra fjárfestingarsjóða, Peningabréfa í EUR / USD / GBP. Landsvaki hf. er dótturfélag Landsbanka Íslands hf. og hluti af samstæðureikningi bankans.

Heildarfjármunir í stýringu Landsvaka námu 151,5 milljarðum króna í lok tímabils.

Þann 30. júní 2006 voru níu verðbréfasjóðir, níu fjárfestingarsjóðir og tveir fagfjárfestasjóðir í rekstri hjá Landsvaka hf. og nam hrein eign þeirra 146,9 milljörðum króna, sem er aukning um 24% frá sama tíma í fyrra.

"Horfur í rekstri Landsvaka hf. eru almennt góðar og félagið er vel í stakk búið til að mæta vexti í starfseminni. Lykilárangursþættir í rekstri Landsvaka er árangur í ávöxtun fjármuna og vöxtur stofna í umsýslu. Vel hefur tekist til með ávöxtun sjóða og stofnar félagsins vaxið verulega en Landsbankinn er aðalsöluaðili sjóða Landsvaka," segir í tilkynningunni.