Hagnaður Landsvirkjunar var 28,5 milljarðar fyrir árið 2007. Í árslok námu heildareignir fyrirtækisins 318,8 milljörðum króna en eigið fé nam 99,2 milljörðum króna og jókst á árinu um 28,4 milljarða króna. Eiginfjárhlutfall er 31,1% í árslok 2007.

Á vef Landsvirkjunar kemur fram að ársreikningur Landsvirkjunar er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu og er þetta í fyrsta sinn sem fyrirtækið gerir ársreikning sinn með þeim hætti.

„Heildaráhrif breyttra reikningsskila á eigið fé samstæðunnar eru þau að bókfært eigið fé í ársbyrjun 2007 hækkar um 8.127 milljónir króna eða úr 61.107 milljónum króna í 69.234 milljónir króna. Ársreikningar fyrirtækisins á undanförnum árum hafa verið gerðir í samræmi við íslenskar reikningsskilavenjur. Samanburðarfjárhæðum árið 2006 hefur verið breytt í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla en ársreikningar fyrri ára eru settir fram í samræmi við íslenskar reikningsskilavenjur,“ segir í uppgjörstilkynningu.

Leiðrétta þurfti reikninga

Þá segir að við gerð ársreikninga árið 2007 hafi komið í ljós að leiðrétta þurfti áður gerða útreikninga vegna innbyggðra afleiða í raforkusamningum sem hafði í för með sér að fjárhæðir í endanlegum stofnefnahagsreikningi í ársbyrjun 2007 breyttust frá því sem áður hafði verið greint frá í árshlutareikningi fyrirtækisins fyrir tímabilið janúar til júní 2007. Leiðréttingin leiddi til lækkunar á eigin fé í ársbyrjun 2007 um 11,8 milljarða króna en hafði óveruleg áhrif á afkomu tímabilsins.

Hagnaður jókst samtals um 17.465 milljónir króna miðað við fyrra ár. Aukning rekstrartekna var að verulegu leyti vegna sölu til Fjarðaáls sem hófst á árinu. Rekstrarkostnaður án afskrifta nam 6.559 milljónum króna en var 6.374 milljónir króna árið áður. Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld námu 27.630 milljónum króna sem skýrist aðallega af gengishagnaði af langtímalánum og gangvirðisbreytingum afleiðusamninga. Gengishagnaðurinn og gangvirðisbreytingar eru að mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins. Gengishagnaður langtímalána skýrist aðallega af hækkun á gengi íslensku krónunnar á árinu. Meðalnafnvextir langtímalána voru um 4,69% á árinu 2007 en þeir voru um 4,63% árið áður.  Í árslok 2007 voru rúm 80% langtímalána í erlendri mynt.