Hagnaður Landsvirkjunar fyrstu sex mánuði ársins var tæplega 83,5 milljónir Bandaríkjadala eftir skatta og fjármagnsliði (um 6,9 milljarðar ísl.kr.) samanborið við 308,5 milljóna dala hagnað á sama tíma í fyrra.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta er 138 milljónir dala (um 11,4 milljarðar ísl.kr.) samanborið við 88,2 milljónir dala á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun en árshlutareikningur Landsvirkjunar er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og er hann í Bandaríkjadölum sem er starfrækslugjaldmiðill Landsvirkjunar frá og með ársbyrjun 2008.

Handbært fé frá rekstri nam rúmlega 76 milljónum Bandaríkjadala og eigið fé í lok tímabilsins nam tæplega 1,8 milljörðum Bandaríkjadala.

Í tilkynningunni kemur fram að afkoma Landsvirkjunar ræðst að verulegu leyti af gangvirðisbreytingum og þróun á gengi en hluti langtímaskulda fyrirtækisins eru í annarri mynt en starfrækslugjaldmiðli samstæðunnar.

Jákvætt gangvirði afleiða sem fært er til eignar í lok júní 2008 nemur rúmlega 824 milljónum Bandaríkjadala og er þá búið að draga frá neikvætt gangvirði þeirra afleiðusamninga sem fyrirtækið hefur gert, segir í tilkynningunni.

Gangvirðisbreyting afleiðusamninga var jákvæð um 223 milljónir dala á tímabilinu janúar til júní 2008 sem skýrist einkum af hækkun á framvirku verði áls á heimsmarkaði. Áhrif gangvirðisbreytinganna eru færð í rekstrarreikningi.

Í tilkynningunni kemur fram að lausafjárstaða fyrirtækisins sé góð, en í lok júní nam handbært fé 137 milljónum Bandaríkjadala sem er þó minna en á sama tíma og í fyrr þegar handbært fé nam tæpum 180 milljónum dala.

Fjármögnun tryggð út 2010

„Fjármögnun það sem af er árinu hefur gengið vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður á lánamörkuðum,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að á fyrstu sex mánuðum ársins gaf Landsvirkjun út skuldabréf fyrir að jafnvirði 272 milljónir Bandaríkjadala og voru kjörin á bilinu 25-100 punktar ofan á Libor vexti.

Frá lokum júní hefur fyrirtækið gefið út skuldabréf fyrir 140 milljónir dala á kjörum sem eru um og innan við 100 punktar ofan á Libor vexti.

Fyrirtækið hefur einnig aðgang að 400 milljón dala veltiláni sem fyrirtækið getur nýtt sér hvenær sem er. Í lok júní hafði fyrirtækið nýtt sér 50 milljónir dala af því.

Sjóðsstaða að viðbættu ónotuðu bankaláni í lok júní nam því samtals 487 milljónum Bandaríkjadölum. Fyrirtækið hefur þannig tryggt sér fjármögnun út árið 2010.

Í lok júní námu heildareignir fyrirtækisins rúmlega 5,5 milljörðum Bandaríkjadala og eiginfjárhlutfall var 31,9%.

„Horfur um rekstur Landsvirkjunar eru góðar fyrir allt árið 2008,“ segir í tilkynningunni.

„Kárahnjúkavirkjun hefur verið tekin í notkun og munu tekjur af raforkusölu til stóriðju auka heildartekjur fyrirtækisins. Gengisþróun og þróun álverðs munu þó sem fyrr ráða miklu um afkomu ársins. „