Á árinu 2005 var hagnaður af rekstri Landsvirkjunar 6.294 milljónir króna en var 7.195 milljónir króna árið á undan og hefur því dregist saman um 14%. Í árslok námu heildareignir fyrirtækisins 182,0 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfall 31,9%.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að rekstrarhagnaður hækkaði samtals um 1.072 milljónir króna miðað við fyrra ár. Afskriftir eru 443 milljónum kr. lægri en árið á undan en fyrirtækið hefur í samræmi við lög um ársreikninga og settar reikningsskilareglur breytt um aðferð við meðferð á undirbúningskostnaði virkjana í ársreikningi. Í stað þess að eignfæra beinan rannsóknar- og þróunarkostnað er nú aðeins eignfærður þróunarkostnaður sem ætla má að afli tekna í framtíðinni. Áhrif þessara breytinga á rekstrarreikning eru þau að afskriftir og gjaldfærður kostnaður verða um 138 milljónum króna lægri en ef fyrri aðferð hefði verið beitt.

Aukning rekstrartekna er að verulegu leyti vegna hækkunar á orkuverði til stóriðju auk þess sem flutningskerfi Landsnets hf. er stærra en flutningskerfi Landsvirkjunar var áður. Meðalnafnvextir langtímalána voru um 3,51% á árinu 2005 en þeir voru um 4,0% árið áður. Í árslok 2005 voru 71% langtímalána í erlendri mynt.

Góð afkoma á árinu 2005 skýrist meðal annars af gengishagnaði af langtímalánum. Gengishagnaðurinn er óinnleystur og verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins. Gengishagnaður langtímalána skýrist aðallega af breytingum á gengi evru og dollars gagnvart krónu.

Í ársbyrjun 2005 yfirtók Landsnet hf. rekstur flutningsvirkja Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða hf. Fyrirhugað var að þessar eignir yrðu færðar til félagsins 1. janúar 2005, en þar sem endanlegt yfirtökuverð lá ekki fyrir gat ekki orðið af því. Eignirnar voru því leigðar til Landsnets hf. á árinu. Samkvæmt samkomulagi sem gert var 1. júlí 2005 voru allar flutningseignir Landsvirkjunar yfirfærðar til Landsnets hf. í lok árs 2005. Tekjufærð er í ársreikningi móðurfélags eignaleiga að fjárhæð 2,1 milljarður króna. Landsvirkjun á 69,4% eignarhlut í Landsneti hf.