Samkvæmt rekstrarreikningi Landsvirkjunar nam hagnaður eftir skatt fyrstu sex mánuði ársins 2009 tæplega 47,3 milljónum Bandaríkjadala eða um 6 milljörðum króna á núverandi gengi.

Hagnaður fyrir skatt nam um 61,5 milljónum dala, samanborið við 134,4 milljónir dala á sama tíma í fyrra og dregst því saman um 54%.

Í uppgjörstilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram að handbært fé frá rekstri nam rúmlega 103,6 milljónum dala og eigið fé í lok tímabilsins nam rúmlega 1,4 milljörðum dala.

Þá er eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar nú um 31,2% en var 29,8% á sama tíma í fyrra.

Tekjur Landsvirkjunar námu 139 milljónum dala á tímabilinu en voru 239,6 milljónir dala á sama tímabili í fyrra. Lækkunin nemur um 100 milljónum dala, eða 42% en Landsvirkjun segir það helst stafa af lækkun álverðs, sem var mjög hátt á fyrri helmingi síðasta árs en lækkaði síðan hratt, og lækkun krónunnar gagnvart Bandaríkjadal.

„Tekjulækkunin hefur minni áhrif á afkomu fyrirtækisins en ætla mætti vegna áhættuvarna,“ segir í tilkynningunni en á fyrstu sex mánuðum ársins fyrirtækið greiddar 40 milljónir dala frá erlendum fjármálastofnunum vegna álvarna en á sama tímabili 2008 greiddi fyrirtækið 35,7 milljónir dala vegna áhættuvarnarsamninga.

Fram kemur að innleystar áhættuvarnir eru færðar meðal fjármagnsliða. Þar eru einnig færð vaxtagjöld sem lækkuðu úr 91,3 milljónum dala á fyrstu 6 mánuðum ársins 2008 í 45,9 milljónir dala á sama tímabili í ár, einkum vegna lækkunar millibankavaxta í Bandaríkjunum og Evrópu.

„Afkoma Landsvirkjunar ræðst að verulegu leyti af gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða tengdum orkusölusamningum fyrirtækisins og þróun á gengi en hluti langtímaskulda er í annarri mynt en starfrækslugjaldmiðli samstæðunnar,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að jákvætt gangvirði afleiða sem fært er til eignar í lok júní 2009 nemur rúmlega 187 milljónum dala og er þá búið að draga frá neikvætt gangvirði þeirra afleiðusamninga sem fyrirtækið hefur gert. Áhrif gangvirðisbreytinganna eru færð í rekstrarreikningi.

Handbært fé Landsvirkjunar nam í lok júní tæplega 129 milljónum dala. Fyrirtækið hefur einnig aðgang að 308 milljóna dala veltiláni sem fyrirtækið getur nýtt sér hvenær sem er. Sjóðsstaða að viðbættu ónotuðu bankaláni í lok júní nam því samtals 437 milljónum dala. Fyrirtækið hefur þannig tryggt sér fjármögnun út árið 2011.