Bandaríska verðbréfamiðlarafyrirtækið Lehman Brothers greindi frá því í gær að hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi hefði aukist um 27% frá því á sama tíma og í fyrra. Samtals nam hagnaður fyrirtækisins 1,27 milljörðum Bandaríkjadala, eða 2,21 dölum á hvern hlut, og tekjurnar jukust um 25%, upp í samtals 4,97 milljarða dala. Mikill hagnaðar af verðbréfaviðskiptum náði að vega upp á móti minnkandi tekjum af fasteignaviðskiptum.

Það er ekki talið líklegt að hjöðnun á fasteignamarkaði muni hafa mikil áhrif á aðra þætti í starfsemi fyrirtæksins. Afkoma Lehman Brothers var mun betri en gert hafði verið ráð fyrir, en að meðaltali höfðu greiningaraðilar spáð því að hagnaður félagins myndi nema 1,88 dölum á hlut. Hlutabréf í fyrirtækinu hækkuðu um tvö prósent í kjölfarið.