Hagnaður Lífs á öðrum ársfjórðungi nam 28 milljónum króna samanborið við 27 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur stóðu nánast í stað og námu 2219 milljónum króna. Hagnaður eftir afskriftir nam 55 milljónum króna samanborið við 34 milljónir fyrir ári og skýrast minni afskriftir af því að Líf hóf að færa viðskiptavild samkvæmt virðisrýrnarprófi.

Hagnaður fyrir skatta nam 34 milljónum króna samanborið við 25 milljóna króna tap fyrir ári síðan en fjármagnsliðir voru neikvæðir um 62 milljónir króna í fyrra en neikvæðir um einungis 22 milljónir í ár.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að Öll dótturfélög Líf hf. hér á landi eru rekin með hagnaði á fyrri árshelmingi ársins þrátt fyrir að að fyrri árshelmingi hafi þurft að gera óreglulega niðurfærslu sem tilheyrir fyrri rekstrarárum upp á 63,3 milljónir króna. EBITDA Lífs á fyrri árshelmingi er nú 190,1 milljón fyrir óreglulega liði samanborið við 140,2 milljónir fyrir sama tímabil árið 2003. En að teknu tilliti til niðurfærslan er EBITDA félagsins 126,8 milljónir króna.

Mikill viðsnúningur er á rekstri Ilsanta sem er markaðs- og sölufyrirtæki með starfsemi í Eystrasaltslöndunum þremur. EBITDA Ilsanta var 7,8 milljónir króna samanborið við -28,6 milljónir á sama tímabili árið á undan. Ilsanta hefur náð samkomulagi við fjölmörg alþjóðleg fyrirtæki um sölu á vörum þeirra í Eystrasaltslöndunum, s.s. Fresenius Kabi, Boston Scientific, Tyco-Puritan Benett, Stigelmeyer, Famed Zyweiec, Alaris, Welch Allyn, Ansell og Cederroth International. Því er vænst áframhaldandi veltuaukningu hjá Ilsanta og batnandi afkomu.

Líf kemur einnig að rekstri tveggja lyfsölukeðja í gegnum 50% eignarhlut félagsins í Litís ehf. Í dag er félagið með 16 apótek í rekstri. Gengið hefur verið frá kaupum á tveimur til viðbótar með fyrirvara um áreiðanleikakönnun. Einnig hefur verið samið um 8 nýjar staðsetningar til viðbótar í samstarfi við tvær verlunarkeðjur. Unnið er að frekari stækkun en það er mat forsvarsmanna fyrirtækisins að mikil tækifæri séu til staðar.

Í lok júni lauk Fjárfestingarfélagið Atorka hf yfirtöku á Lífi hf. og á nú rúmlega 98% af virku hlutafé í félaginu. Umbreytingarferli á Lífi hófst með kosningu nýrrar stjórnar í apríl mánuði sem gefur tilefni til bjartsýni. Á fyrri árshelmingi hefur félagið orðið fyrir nokkrum kostnaði vegna þessara umbreytinga. Árangurinn af umbreytingunum mun byrja að skila sér á síðari árshelmingi þessa árs og koma inn að fullum krafti í byrjun næsta árs. Áætla má að sparnaðaraðgerðir sem unnið er að geti skilað allt að 100 milljónum króna í sparnað á árinu 2005.