Líftryggingafélögin högnuðust samtals um 1.662 milljónir króna í fyrra sem var 13,6% aukning á milli ára. Sjóvá-Almennar líftryggingar skilaði mestum hagnaði líftryggingafélaga á árinu 2009, eða 634 milljónum króna. Okkar líftryggingar, sem eru í eigu Arion, hagnaðist um 444 milljónir og Lífís, sem er í eigu VÍS, skilaði tæplega fjögur hundruð milljóna króna hagnaði. Þá var hagnaður Líftryggingamiðstöðvarinnar um 174 milljónir.

Samanlögð bókfærð iðgjöld íslenskra líftryggingafélaga námu 2.657 milljónum króna og jukust um tæp fimm prósent á milli ára. Ef einungis er horft til iðgjalda af líftryggingarekstri þá er Sjóvá-Almennar líftryggingar stærsta félagið á markaði með 35% hlutdeild en næst kemur Okkar líf með þriðjungsmarkaðshlutdeild. Fjárfestingartekjur félaganna jukust aðeins um 1% og voru 943 milljónir króna. Rekstrarkostnaður var 703 milljónir og dróst saman um 6,6%.

Greiddu 800 milljónir í arð

Tvö líftryggingafélög skiluðu eigendum sínum myndarlegum arði á síðasta ári. Lífís greiddi út hálfan milljarð króna og Okkar líftryggingar borguðu út 300 milljónir króna. Heildareignir líftryggingafélaga námu um 13,5 milljörðum króna og hækkuðu um tíu prósent frá fyrra ári.