Hagnaður Lýsingar, dótturfélags Exista hf., eftir skatta, var 549,9 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2007, að því er fram kemur í tilkynningu til OMX Kauphallar Íslands.

Hreinar vaxtatekjur voru 1.236 milljónir króna á fyrstu 6 mánuðum ársins 2007 en þær voru 940 milljónir króna á sama tímabili á árinu 2006 og jukust því um 31,5%.

Útlán voru 58.506 milljónir króna í lok tímabilsins. Afskriftarreikningur útlána sem hlutfall af útlánum og veittum ábyrgðum í lok tímabils var 0,81%.

Lykiltölur tímabilsins og samanburðartölur frá árunum á undan sýna góðan vöxt í rekstri fyrirtækisins. Heildarniðurstaða efnahagsreiknings var í lok timabils 60.810 milljónir króna, segir í tilkynningunni.

Eigið fé Lýsingar hf. var í lok tímabils 5.410,8 milljónir króna og víkjandi lán 1.357,8 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall reiknað skv. lögum (CAD hlutfall) er 11,49%.

Aðal starfsvettvangur Lýsingar er fjármögnun á atvinnutækjum, atvinnuhúsnæði og bifreiðum fyrir fyrirtæki og einstaklinga með eignaleigusamningum.