Rekstur Lýsingar hf. gekk mjög vel á síðasta ári og var hagnaður eftir skatta 590 m.kr. Útlán jukust um 17,6% og voru 30.033 m.kr. í árslok. Viðskiptamönnum, fyrirtækjum og einstaklingum, fjölgaði verulega á árinu. Þá var staða vanskila mjög góð og afskrifaðar tapaðar kröfur 0,39% af útlánum í upphafi árs en meðaltal sl. 5 ára er 0,4%. Heildarniðurstaða efnahagsreiknings var í árslok. 33.702 m.kr.

Lýsing hf. á dótturfélag, EIK fasteignafélag hf. Félagið starfar á fasteignamarkaði með því að kaupa og leigja fasteignir með hefðbundum húsaleigusamningum. Lýsing hf. á 82,29% hlutafjár í félaginu og var hagnaðarhlutur Lýsingar hf. 169,5 m.kr. á árinu, sem er töluvert umfram áætlun.

Eigið fé Lýsingar hf. var í árslok 3.088 m.kr. og víkjandi skuldir 187,3 m.kr. Eiginfjárhlutfall reiknað skv. lögum er 11,65%. Ársreikningurinn er gerður í samræmi við reglur um reikningsskil lánastofnana nr. 834/2003.

Nú þegar litið er fram á veg í efnahagsmálum er enn bjart framundan. Sóknarfæri eru til staðar og Lýsing hf. vel í stakk búið að nýta þau tækifæri, með trausta fjárhagsstöðu, sterkan bakhjarl, frábært starfsfólk og gott orðspor. Bendir því ekkert til annars en að árið 2005 geti orðið félaginu farsælt.

Fjöldi starfsmanna var 40 í árslok 2004. Í stjórn Lýsingar hf. eru nú Sólon Sigurðsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Bjarki H. Diego. Framkvæmdastjóri er Ólafur Helgi Ólafsson.

Lýsing hf. er dótturfyrirtæki KB banka hf. Félagið var stofnað 1. október 2001 á grunni félags með sama nafni. Félagið hefur að markmiði að þjóna íslensku atvinnulífi á traustan og faglegan hátt með því að bjóða eignarleigusamninga um atvinnutæki og húsnæði, auk lána til tækjakaupa og verkábyrgðir. Einnig býður félagið fjármögnun einkabíla fyrir einstaklinga með bílasamningum og bílalánum Lýsingar hf. Félagið hefur starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 161 / 2002.