Hagnaður Marels á fjórða fjórðungi nam 3,4 milljónum  evra en meðalspá greiningardeildanna hljóðaði upp á 7 milljónir evra. Sala félagsins nam 79 milljónum evra á fjórðungnum en meðalspáin var 77 milljónir evra. Hlutabréf í hollenska fyrirtækinu Stork NV eru færð á markaðsvirði og koma fram í 5,1 milljónar evra hagnaði í hlutdeildarfélagi á fjórða ársfjórðungi. Á fjórðungnum var samningum um kaup á Stork Food Systems lokið. Beðið er samþykkis samkeppnisyfirvalda.

„Árið 2007 einkenndist af umfangsmikilli samþættingu Marels, Scanvægt, AEW/Delford og Carnitech. Samningar voru undirritaðir um kaup á Stork Food Systems í nóvember síðastliðnum," segir Hörður Arnarson, forstjóri Marels, í fréttatilkynningu. „Við sameiningu Stork og Marels mun Marel-samstæðan hafa nánast fimmfaldað stærð sína frá því ný stefna fyrirtækisins var kynnt í upphafi ársins 2006. Megináherslur eru nú á innri vöxt og bætta afkomu.

Samþætting fyrirtækjanna hefur í meginatriðum gengið vel og félagið haldið markaðshlutdeild á hratt vaxandi markaði. Það eru vonbrigði að þau samlegðaráhrif sem unnið hefur verið að hafa enn ekki haft merkjanleg áhrif á afkomu félagsins. Nú er reiknað með að rekstrarhagnaður félagsins á árinu 2008 verði um 8%, en hafi náð 10% fyrir lok ársins. Þessi áætlun er án áhrifa af Stork Food Systems. Tekjur af kjarnastarfsemi Stork Food Systems á árinu 2007 námu um 300 milljónum evra og rekstrarhagnaður 10,6%. Gert er ráð fyrir áframhaldandi öflugum innri vexti og góðri afkomu af kjarnastarfsemi Stork Food Systems," segir hann.