Hagnaður Marels á fyrsta ársfjórðungi nam 0,6 milljónum evra (43 milljónir króna) samanborið við 1.8 milljónir (143 milljónir króna) í fyrra, segir í tilkynningu.

Rekstrarhagnaður EBIT var 0,5 milljónir (36 milljónir króna) samanborið við 3,1 milljónir (246 milljónir króna) í fyrra.

Sala fyrsta ársfjórðungs 2006 nam 32,5 milljónum evra (2,5 milljarðar króna) samanborið við 29,9 milljónir (2,4 milljarðar króna) á sama tíma árið áður. Salan jókst því um 8%.

Verkefnastaða í lok mars 2006 var um 22 milljónir evra samanborið við 16,0 milljónir evra í árslok 2005.

Einskiptiskostnaður hjá Carnitech vegna skipulagsbreytinga er allur gjaldfærður og gert er ráð fyrir kröftugum innri vexti fyrirtækisins og mun betri afkomu á síðari hluta ársins, segir í tilkynningu.

?Afkoma ársfjórðungsins er slök sem er í samræmi við það sem tilkynnt var í tengslum við uppgjör síðasta árs. Ársfjórðungurinn einkenndist af tregðu í pöntunum framan af, erfiðu gengisumhverfi og því að skipulagsbreytingar hjá Carnitech voru í hámarki á tímabilinu," segir Hörður Arnarson, forstjóri Marels, í tilkynningu. Þar segir hann einnig:

"Pantanir jukust mjög þegar leið á fjórðunginn og hefur verkefnastaðan ekki áður verið betri en hún var í lok mars sl. Rekstarumhverfi fyrirtækisins hefur breyst mjög til batnaðar með veikingu íslensku krónunnar frá áramótum. Horfur fyrir seinni hluta ársins eru því góðar," segir Hörður Arnarson, forstjóri Marels.

Meðalgengi íslensku krónunnar gagnvart evru var á fyrsta ársfjórðungi 78,29 krónur fyrir hverja evru.